137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[13:48]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja. Ályktunin er á þessa leið:

Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að framkvæma nauðsynlegar afskriftir á lánum til íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja og nemi afskriftirnar að minnsta kosti 20% af höfuðstól láns. Skal þessum afskriftum vera lokið eigi síðar en 1. ágúst 2009.

Þessi tillaga sem flutt er af öllum þingmönnum Framsóknarflokksins kemur í framhaldi af mikilli og langri umræðu um mikilvægi þess og þörfina fyrir að ráðast í leiðréttingu á lánum til íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja. Um þessa svokölluðu 20% leið hefur mikið og lengi verið rætt í samfélaginu. Ég tel ástæðurnar vera tvær: Í fyrsta lagi að þessi hugmynd var gagnrýnd á sínum tíma á röngum forsendum. Það hefur gefið tækifæri til þess að halda umræðunni áfram með því að leitast við að leiðrétta út á hvað hugmyndin gengur raunverulega og hefur það svo sem gengið ágætlega gagnvart flestum þótt því miður hafi hæstv. ráðherrar og einkum og sér í lagi hæstv. forsætisráðherra og félagsmálaráðherra ekki enn gefið sér tíma til þess að kynna sér málið. Þeir eru ekki hér í dag en ég hafði vonast til að geta notað tækifærið núna til þess að setja hæstv. ráðherra inn í þetta mikilvæga mál. Það verður þá líklega enn að bíða.

En hin ástæðan fyrir því hversu mikið þetta hefur verið rætt og lengi er sú að ríkisstjórnin hefur ekki komið með tillögur sjálf, aðrar leiðir til þess að ráða bót á þeim mikla vanda sem þessari tillögu er ætlað að takast á við.

Sú gagnrýni sem mest hefur farið fyrir á þessa leið er sú að í því felist gríðarlegur kostnaður fyrir íslenska ríkið. Það er alrangt. Hér er í fyrsta lagi ekki um að ræða aukinn kostnað yfir höfuð heldur er verið að reyna að lágmarka tap og í rauninni að láta tap sem þegar leit út fyrir að væri orðið jafnvel ganga að einhverju leyti til baka.

Ástæðan er sú að hér er í rauninni ekki um fjármagn ríkisins að ræða heldur lán sem íslenska bankakerfið hefur veitt áfram til heimila og fyrirtækja og teljast þau nú að miklu leyti vera töpuð. Þessi lán voru fjármögnuð einkum af erlendum kröfuhöfum bankanna og kröfuhafarnir hafa tapað langsamlega mestu af því sem þeir lánuðu til Íslendinga.

Skuldabréf þessara banka ganga nú kaupum og sölum í sumum tilvikum á 1–5% af upprunalegu verði sem gefur til kynna að menn gera ráð fyrir alveg gríðarlegum afskriftum af þeim peningum sem hingað voru lánaðir. Maður skyldi þá ætla að það gæfist töluvert svigrúm til afskrifta gagnvart þeim sem þessi lán tóku og nú er ljóst að geta ekki staðið undir þeim. Þá er mikilvægt að hafa í huga að sú heimskreppa sem nú ríður yfir er á flestum stöðum vegna þess að tekin voru miklu hærri lán en menn geta staðið undir og víðast hvar eru menn nú að gera sér grein fyrir því að eina leiðin til að fást við þetta ástand sé að ráðast í endurskipulagningu lána eða með öðrum orðum afskriftir að verulegu leyti.

Menn hafa séð hvað gerist þegar farnar eru aðrar leiðir, til að mynda þegar reynt er að lengja í lánum og halda lánunum áfram á bókunum þó að ljóst sé orðið að þau fáist aldrei að fullu endurgreidd. Það gerðu menn í Japan á sínum tíma við lok níunda áratugarins og í upphafi þess tíunda. Það varð til þess að ríkt hefur algjör stöðnun í japönsku efnahagslífi nú um tveggja áratuga skeið.

Víða eru menn að gera sér grein fyrir því að eina leiðin til þess að fást við þann vanda sem nú er uppi er sú að ráðast í afskriftir. Þá er spurningin hvaða leið er best til þess og um það geta menn deilt. En sanngirnin sem felst í því að leiðrétta lán allra jafnt ætti að vera öllum ljós því að með því að framkvæma flata afskrift eða flata leiðréttingu upp á til að mynda 20% er í raun verið að færa alla nokkurn veginn aftur, þ.e. þá sem eru með verðtryggð lán, að þeirri upphæð sem lánin stóðu í áður en urðu hér ófyrirséðir atburðir sem leiddu til um það bil 20% verðbólgu og hækkunar lánanna í samræmi við það.

Verði ráðist í afskrift lána, eins og ég nefndi áðan, felur það í sér kostnað vegna þess að ólíkt hefðbundnum afskriftarreikningum þegar menn gera ráð fyrir kannski 2 eða 3% mun það að ráðast í afskriftir við þær aðstæður sem núna ríkja hafa áhrif á hversu margir eru í stakk búnir til að halda áfram að greiða það. Og núna við þessar aðstæður skiptir öllu máli að sem flestir geti haldið áfram að greiða, sérstaklega vegna þess að eignaverð hefur nú lækkað mjög. Flestar eignir, hvort sem það eru áþreifanlegar eignir, hlutabréf eða annað, eru orðnar illseljanlegar og það sem hægt er að selja selst yfirleitt á verulega lágu verði. Fari menn þá leið að ganga að veðum lána og selja þau fæst yfirleitt mjög lítið upp í lánin og þess vegna er mjög mikið til þess vinnandi að sem flestir geti haldið áfram að greiða. Þar af leiðandi má færa fyrir því sterk rök að á endanum skili sér meira til baka til þeirra sem veittu lánin, komi menn til móts við lántakandann með því að afskrifa lánin að hluta.

Þetta er ekki spurning um að kostnaður lendi á íslenska ríkinu. Hér er um að ræða afskriftir sem þegar eru nauðsynlegar. Við ættum einungis að vera að fjalla um hvort sú leið sem hér er rædd sé besta útfærslan á nauðsynlegum afskriftum. Ég er svo sannarlega til í þá umræðu og geti menn sýnt fram á betri leið til að framkvæma þessa afskrift er ég vissulega til í að skoða það. En það er fráleitt að halda því fram að hér sé um að ræða kostnað sem eigi að lenda á íslenska ríkinu vegna þess að þessar afskriftir eiga sér þegar stað og munu eiga sér stað við flutning lánanna úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Það er orðið ljóst að íslenska ríkið mun kaupa lán gömlu bankanna af kröfuhöfunum, annaðhvort, eins og nú stefnir í, með því að láta skuldabréfamótið í gömlu bankana og færa lánin inn í þá nýju eða með því gera það beint, þ.e. ef íslenska ríkið keypti lánasöfn beint af gömlu bönkunum. En það stendur reyndar ekki til eins og sakir standa.

Séu þessi lánasöfn keypt á óeðlilega háu verði með því að borga meira fyrir þau en hægt væri að fá fyrir þau annars staðar gæti ég skilið málflutning þess efnis að kostnaðurinn geti lent á ríkinu en nú er staðan einfaldlega sú að lánasöfn banka eru mjög ódýr. Það fæst mjög lítið fyrir lánasöfn. Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um, ekki hvað síst fjármálafjölmiðlar eins og Financial Times, að lánasöfn fjármálastofnana séu nánast óseljanleg núna. Menn hafa nefnt í því sambandi að þegar tekst að selja þau fáist hugsanlega 10% af upprunalegu verði.

Hvernig ætli staðan sé þá á þessum íslensku lánasöfnum? Hvað væri eðlilegt að greiða fyrir þau? Væri eðlilegt að greiða meira en 10%? Ég skal ekki segja. En ef að við gefum okkur að íslenska ríkið kaupi þessi lán, til að mynda fasteignalánin á 50% afskrift, er þá eðlilegt að ríkið sem keypti þessi lán á helmingsafslætti haldi áfram að reyna að innheimta þau að fullu? Tökum dæmi um lán upp á 100 milljónir sem ríkið kaupir á 50 milljónir, á þá að reyna að innheimta allar 100 milljónirnar engu að síður þegar ástæðan fyrir því að lánin voru svona ódýr og voru seld með þessum afslætti er einmitt sú að menn höfðu gert sér grein fyrir að ekki væri hægt að innheimta alla upphæðina? Með því að halda áfram að reyna að innheimta það sem ljóst er að ekki mun innheimtast og búið er að gefa afslátt af, nást ekki áhrifin af afslættinum sem ættu að vera þau að sætta sig við að hluti lánsins sé tapaður og gera þá hagkerfinu kleift að halda áfram frá þeim punkti. Með þessu verður í raun til óþarfa tap. Það er búið að afskrifa en jákvæðu áhrifin skila sér ekki vegna þess að sá sem skuldar er áfram týndur rétt eins og afskriftin hefði ekki átt sér stað.

Það er því órökrétt að halda því fram endalaust í þessari umræðu að hér sé um það að ræða að ríkið taki á sig kostnað með því að láta afskriftir að einhverju leyti, ekki að öllu leyti, bara að einhverju leyti, ganga áfram til þeirrar sem skulda.

Viðbótaráhrifin eru þau að þetta hefur ekki bara áhrif á þá sem skulda. Þetta hefur ekki bara þau áhrif að fyrirtæki geti þá séð einhverja framtíð með því að halda áfram rekstri, halda fólki í vinnu og að menn sjái tilgang í að halda áfram að borga af lánunum sínum og halda heimilum sínum gangandi. Þetta hefur áhrif á hagkerfið í heild. Það er það sem vantar umfram allt núna, að halda íslenska hagkerfinu gangandi og koma í veg fyrir að hér verði algjört kerfishrun.

Nú leitar ríkisstjórnir um allan heim leiða til að halda uppi neyslu, halda hagkerfum landa sinna gangandi. Menn hafa ráðist í gríðarlega dýrar aðgerðir til þess. Í Bandaríkjunum gengu menn svo langt að senda ávísanir heim til fólks með skilaboðum um að menn skyldu fara og eyða þessu, kaupa sér einhverjar vörur eða þjónustu í von um að með því móti mætti halda fleiri fyrirtækjum í rekstri.

Sú leið sem er líklega hagkvæmust til að ná þessum áhrifum er að ráðast í leiðréttingu lánanna, láta þá óeðlilegu hækkun sem varð vegna hrunsins ganga til baka og gera fólki kleift að halda áfram daglegri neyslu og halda þá vonandi fleiri fyrirtækjum í rekstri. Ef fleiri fyrirtæki geta haldist í rekstri verða færri atvinnulausir og færri lenda fyrir vikið í þeim hópi þar sem 20% leiðrétting eða verðbólguleiðrétting duga ekki til. Við getum kallað það hvort heldur sem er.

Með þessum aðgerðum er því ekki bara verið að koma til móts við þá sem eru í vandræðum vegna þess að þeir ráða ekki við afborganir, verið er að koma til móts við hagkerfið í heild. Þetta er fyrirbyggjandi aðgerð en það er nú það sem hefur vantað hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr, að ráðast í aðgerðir sem eru fyrirbyggjandi í efnahagsmálum.

Ef ég tek þetta saman í lokin er ekki um að ræða, svo ég ítreki það af því ég sé að þarna situr hæstv. félagsmálaráðherra, að aukinn kostnaður lendi á íslenska ríkinu. Verið er að tala um að afskriftir sem þegar er ljóst að þurfa að eiga sér stað séu að einhverju leyti látnar ganga áfram til þeirra sem skulda þannig að þeir geti þá haldið áfram að borga og fyrir vikið innheimtist á endanum meira. Sanngirnin sem í þessu felst er sú verið er að færa alla aftur nokkurn veginn aftur á þann stað sem þeir voru þegar þeir tóku ákvarðanir sínar, gerðu ráðstafanir áður en hér urðu ófyrirsjáanlegir atburðir sem segja má að hafi valdið forsendubresti. Allir eru þannig settir aftur á sama stað. Það mun ekki nægja öllum en vegna áhrifanna fyrir hagkerfið í heild mun þetta vonandi nægja sem flestum. Þá er auðveldara að fást við og aðstoða þá sem þurfa áfram á aðstoð að halda eftir að ráðist hefur verið í svona heildaraðgerðir.

En með því að líta á þetta sem leiðréttingu er framkvæmdin á þessu auk þess mun auðveldari en að ráðast í sértækar aðgerðir fyrir hverja fjölskyldu. Leiðrétting sem nær yfir allt saman er auðframkvæmanleg og er hægt að framkvæma hana á einum degi í rauninni þannig ekki ætti að vera mikið vandamál að ná því fyrir 1. ágúst ætti, en það liggur á. Við höfum séð það núna, til að mynda í umræðum í gær um stöðu heimilanna, að ástandið heldur áfram að versna. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin taldi að mundu nægja hafa ekki nægt, hafa ekki þau áhrif sem ríkisstjórnin vonaðist til. Nú þurfa menn að sýna dálítinn kjark. Þurfa að þora að hugsa aðeins út fyrir kassann og gera eitthvað sem ekki hefur verið gert áður því að þetta eru aðstæður sem ekki hafa komið upp áður. Þegar það gerist þurfa menn að þora að leita óhefðbundinna lausna. Þetta teljum við vera vænlegustu lausnina í stöðunni, framkvæmanlega, sanngjarna og nauðsynlega.