137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:04]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir spurninguna sem brennur einmitt á mjög mörgum þessa dagana þegar verið er að ræða um yfirfærsluna úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Það er rétt, það þarf að huga að þessu áður en sú yfirfærsla á sér stað og fari menn þá leið sem nú stefnir vissulega í, að nýju bankarnir kaupi lánin með verulegum afslætti eða með verulegri afskrift og haldi áfram eins og ekkert hafi í skorist, eins og nú stendur til, að rukka fulla upphæð er ríkið ekki að gera neitt annað en að reyna að græða á stöðu heimilanna og nýta þessar afskriftir sem eru veittar sjálfu sér til hagsbóta.

Það eru fleiri en ríkið sem reyna að spila þennan leik því að erlendir spákaupmenn skiptast nú á skuldabréfum íslensku bankanna og hugsa sér þá að hagnast nokkurn veginn á sama hátt og íslenska ríkið undir forustu þessarar ríkisstjórnar. Þegar upp er staðið mun þetta hins vegar ekki skila miklum fjárhagslegum ávinningi fyrir íslenska ríkið vegna þess að með því að halda áfram að pína íslensk heimili og fyrirtæki til að greiða það sem ljóst er að þau standa ekki undir verður á endanum algjört hrun íslensks efnahagslífs sem reyndar stefnir því miður nú þegar í. Það mun leiða til enn minni skatttekna ríkisins og valda verulegu fjárhagslegu tjóni, ekki bara fyrir heimilin og fyrirtækin, heldur fyrir ríkið líka. Það mikilvægasta er að við gerum okkur grein fyrir stöðunni og að menn vinni saman að úrlausn þeirrar stöðu.