137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:19]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir greinargott erindi og tek undir aðvörunarorð hans varðandi gjaldeyrislánin. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni að fasteignalán væru yfirleitt hærra metin en önnur lán og ég tel að það sé hárrétt hjá honum en ég mundi vilja heyra álit hv. þingmanns á því hvort ekki sé eðlilegt við þær aðstæður sem nú ríkja á Íslandi, í íslensku efnahagslífi, að einnig eigi sér stað veruleg afskrift við millifærsluna, hugsanlega millifærslu, á fasteignalánunum. Í Bandaríkjunum höfum við horft upp á ástand þar sem sums staðar er hægt að kaupa einbýlishús fyrir málamyndaverð, 1 dollara eða 100 dollara, vegna þess að þar hefur orðið algjört hrun á fasteignamarkaði. Bankarnir sitja uppi með miklu fleiri fasteignir en þeir geta losað sig við, sjá í rauninni bara kostnað við að halda í eignirnar og vilja þar af leiðandi mikið til vinna að losna við þær. Í því tilviki voru fasteignalán lánasöfn bankanna mjög lágt metin, og eru enn.

Telur þingmaðurinn að þetta gefi tilefni til þess að við förum mjög varlega í mat á fasteignalánum á Íslandi og réttlæti verulega afskrift íslenskra fasteignalána?