137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:33]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétri H. Blöndal þykir þetta vera harður heimur. Honum virðist vera mikið í mun að heimurinn sé sem harðastur til að hann falli að heimssýn hv. þingmanns. En það þarf að leiðrétta nokkra hluti í ræðu hv. þingmanns.

Í fyrsta lagi var ég búinn að útskýra áðan muninn á hefðbundnum afskriftareikningi og því sem hér er um að ræða en það má þó hnykkja á því með því að benda hv. þingmanni á að það er ekki í rauninni í þessu tilfelli um afskriftasjóð að ræða heldur eign sem nýi bankinn eða ríkið kaupir á tilteknu verði. Og hvernig ætlar ríkið að ráðstafa þessari eign? Ætlar það að reyna að græða á henni vegna þess að nú er ástandið þannig, eins og ég kom inn á áðan, að þetta er selt á mjög lágu verði, þessi lánasöfn. Ef hægt er að kaupa lánasöfn banka til að mynda í Þýskalandi á 10% af upprunalegu verði jafnvel þó að menn geri ráð fyrir að innheimta þar miklu meira, hvernig er ástandið þá á Íslandi? Hér er allt á brunaútsölu. Ætlar íslenska ríkið sem sagt að nýta sér það að kaupa lánasöfn íslensks almennings á brunaútsölu og rukka áfram upp í topp? Það er ekki heldur rétt að verið sé að verðlauna einhverja sem fóru óvarlega. Það er einmitt ekki verið að gera það með því að ráðast í svona heildaraðgerð, heildaraðgerð sem færir alla aftur á sama stað og þeir voru. Hv. þingmaður tók dæmi af tveimur mönnum sem búa við ólíkar aðstæður, annar hafi eytt miklu en hinn litlu. Við skulum hafa það í huga að maður sem skuldaði 100 millj. og fær 20% afskrift skuldar eftir sem áður 80 millj. Sá sem skuldaði 10 og fær 20% afskrift skuldar 8 millj. Í báðum tilvikum er verið að leiðrétta hjá mönnunum í hlutfalli við þá ógæfu sem þeir lentu í vegna þess að hér urðu ófyrirséðir atburðir. Það er ekki verið að koma meira til móts við þann sem skuldaði mikið en hinn.