137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil alls ekki að heimurinn sé sem harðastur. Ég hef lagt áherslu á að ríkisstjórnin fókuseri á það sem er mesti vandinn sem er atvinnuleysið. Hún hefur ekki gert það, því miður. Ég vil endilega að hv. þingheimur allur snúi sér að því að bæta stöðu þeirra sem eru atvinnulausir. Þar er vandinn, þar kristallast vandinn sem við glímum við. Þessi lausn leysir það ekki neitt. Fólk heldur áfram að vera atvinnulaust þrátt fyrir þetta og það sem meira er, ég hygg að gjaldþrotum muni ekki fækka. 20% lækkun á skuldum þess sem er í miklum vandræðum breytir í sjálfu sér ekki miklu. En þetta er samt úrlausnarefni sem þyrfti að skoða. Ég hef enga trú á því að gjaldþrotum heimila fækki um 20% eða 25% við þessa aðgerð vegna þess að það eru stóru fyrirtækin sem eru með aðalafskriftirnar.

Varðandi það að ríkið sé að kaupa eignir og það sé hægt að kaupa þessar kröfur á 10%. Í haust kom hér maður, Philip Green, og ætlaði að kaupa allar kröfur á FL Group minnir mig eða Baug á 10%, (Gripið fram í: 5%.) 5% jafnvel og nú er þetta verðlaust, nú er þetta algerlega verðlaust þannig að það er ekki alveg á vísan að róa í því. Varðandi það að ríkið kaupi þessi lánasöfn á 50% þýðir að það eru miklar væntingar til þess að það geti náð inn 50% en ekki meiru. Það er engin eign þarna, afskriftasjóðurinn fer til að mæta töpum, deilan stendur um það. Og kröfuhafar bankanna, þýsku bankarnir sem eru búnir að tapa hér 6 þúsund milljörðum, kæra sig ekkert um að tapa meiru og alls ekki að fara að lækka skuldir hjá íslenskum almenningi um 20% á meðan þýskur almenningur býr vil eldgömlu skuldirnar sínar óskertar áfram.