137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:37]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á í ræðu sinni og svo aftur núna að að miklu leyti eru afskriftirnar vegna félaga sem eru algerlega farin í þrot. En eftir stendur að gert er ráð fyrir verulegum afskriftum og eðlilegt að gera ráð fyrir verulegum afskriftum á öðrum lánum líka, m.a. fasteignalánum, af ástæðum sem ég nefndi áðan, hættunni á því að þau verði mjög lítils virði. Hv. þingmaður getur velt því fyrir sér, hvað ef sú leið yrði farin, þ.e. leið markaðarins og leið markaðarins er hv. þingmanni mjög að skapi, að setja þessa banka í þrot og bjóða upp lánasöfn þeirra á alþjóðlegum markaði? Hvað telur hv. þingmaður að þá yrði hægt að fá fyrir íslensk undirmálsfasteignalánasöfn, því að öll íslensk fasteignalán eru flokkuð sem undirmálslán, telur hv. þingmaður að það væri hægt að fá 10%? Segjum að íslenska ríkið keypti þessi lánasöfn á 25%, verum bara örlát gagnvart kröfuhöfunum og segjum að þeir fengju frá íslenska ríkinu 25% á slíku opnu uppboði, teldi þá hv. þingmaður engu að síður eðlilegt að ríkið sem keypti þessi lán, fasteignalán á 25%, héldi áfram að reyna að innheimta 100% vegna þess að ella gæti tapast svo og svo mikið og tapið orðið meira en 75%? Nei, tapið yrði ekki meira en 75% nema haldið yrði áfram að reyna að rukka alla um 100%. Þá er hugsanlegt að tapið yrði þetta með algeru hruni fasteignamarkaðarins og þeim afleiðingum að eignaverð á Íslandi, eins og sums staðar í Bandaríkjunum, færi algerlega niður í botn. Það gerist ekki nema menn haldi áfram að berja höfðinu við steininn og reyni að rukka fullt verð. Það er svigrúm til að veita þessar afskriftir og það er mikil hagkvæmni í því þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir algert hrun á íslenskum fasteignamarkaði.