137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Aftur heyrir maður alhæfingar — undirmálslán á Íslandi. Ég mótmæli þessu harðlega. Hér fer fólk í greiðslumat, hér eru tekjur fólks kannaðar og allt slíkt þannig að … (Gripið fram í: Forsendur hafa breyst.) Nei, forsendur hafa nefnilega ekki breyst. (Gripið fram í.) Nei, þær hafa nefnilega ekki breyst fyrir lungann af þjóðinni. Kannski eru 20 eða 30% þjóðarinnar í vandræðum eða miklum vandræðum en það þýðir líka að 70–80% eru ekki í vandræðum (Gripið fram í.) og það fólk mun að sjálfsögðu borga af sínum lánum og er að gera það. Sú forsenda að allt sé farið á hausinn — ég viðurkenni það, frú forseti, að ef allt væri farið á hausinn á Íslandi væri þessi leið hugsanlega fær sem við erum að tala um hér en það er ekki þannig. Íslenskir atvinnuvegir standa mjög sterkt. Íslenski útflutningurinn er ótrúlega sterkur. Álútflutningurinn hefur tvöfaldast að verðgildi þrátt fyrir verðlækkun á áli. Sjávarútvegurinn stendur glimrandi vel og ég ætla ekki að nefna ferðamannaiðnaðinn sem stendur svo vel að menn hafa ekki upplifað annað eins í þeirri grein. Það er ekki rétt að hér sé allt í kaldakoli og að fara til fjandans. Það er ekki þannig. Það eru liðnir sex mánuðir frá hruninu og það er ekki enn komið í neitt kaldakol. Það er ekki þannig. (Gripið fram í.) Mjög margir þeirra sem urðu atvinnulausir í haust eru komnir með vinnu aftur, það er bara þannig, en það bætast alltaf nýir við og því miður er ríkisstjórnin ansi sein í því að gera ráðstafanir til að laga þá stöðu. En að ganga út frá því að íslensk íbúðalán séu undirmálslán eins og í Bandaríkjunum, að fólk hafi fengið lánað án þess að fara í nokkurt greiðslumat eða slíkt er ekki rétt forsenda. Útlendingar vita þetta, þeir sjá útflutningstölurnar. (Gripið fram í.) Útlendingar sjá hvað innviðirnir eru sterkir á Íslandi, þeir mundu ekki selja íslensk lán á 10%.