137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það virðist vera einhver grundvallarmisskilningur í þessu öllu hjá kollega mínum. Það er þannig í hefðbundinni bankastarfsemi að lánasöfn eru bókuð á einhverri upphæð, segjum 100 milljónum af því að við vorum að nota þá tölu, og síðan er útlit fyrir miklar afskriftir, segjum 10% afskriftir, vegna árferðis eða einhvers slíks og þá er lagt inn á afskriftasjóð til að mæta útlánatöpum, annars mundi efnahagsreikningurinn skekkjast og annað slíkt. Um það er alls ekki að ræða hérna, það er ekki verið að tala um neina afskriftasjóði, það er bara verið að kaupa eign og þetta er bókað inn á 50% virði á efnahagsreikning bankans.

Annað mál er að bankakerfið hérna var við hrunið rétt rúmir 14 þúsund milljarðar og það sem verður afskrifað af því verður á milli 70 og 80%. Og að að eignarhaldsfélög séu flutt yfir í nýju bankana, þetta er algerlega fyrir utan það, þetta eru bara íbúðalán og þetta eru venjuleg rekstrarfélög, hefðbundin rekstrarfélög. Þetta eru ekki stóru eignarhaldsfélögin sem um er að ræða.

Annað og kannski seinasta leiðréttingin er sú að íslensk íbúðalán eru undirmálslán. Þau ná ekki svokölluðu „investmentgrade“ hjá lánsmatsfyrirtækjum og undirmálslán er einföld þýðing á „subprime“ og „prime“ er þá lágmarkseinkunn og íslensk lán ná því ekki. Annað var það ekki.