137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:01]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru nokkrar staðreyndir í andsvari hv. þingmanns sem ekki voru alveg með þeim hætti sem ég legg a.m.k. minn skilning í. Eitt stendur þó eftir: Það er ástæða til að grípa til aðgerða fyrir það fólk sem á í erfiðleikum með að standa í skilum með lán sín, um það er ég algjörlega sammála. Þessi leið er óhagkvæm, hún er dýr, hún er ósanngjörn og felur það ekki í sér að hún gagnist fyrst og fremst þeim sem eiga í erfiðleikum með að standa í skilum með lán sín. Hún gagnast meir þeim sem stofnuðu til mikilla skulda, hún gagnast höfuðborginni frekar en landsbyggðinni, hún gagnast fólki á miðjum aldri fremur en öldruðum og er beinlínis á kostnað aldraðra og ungra. Hún er með öðrum orðum ekki sanngjörn, hún er mjög dýr í framkvæmd og (Gripið fram í.) hún felur ekki í sér fullnægjandi lausn fyrir þá sem eru í mestum vanda.