137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:10]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka notaleg orð í minn garð. Það er nú ekki þannig að hv. þingmaður þurfi að hafa þungar áhyggjur af því að ég skilji ekki vandann. Ég las mjög skýrar tölur hér áðan þar sem ég benti á að 74% af heimilunum væru ekki í verulegum vanda með húsnæðislán sín. Það þýðir — ef hv. þingmaður getur dregið gagnályktun, sem ég trúi að hann geti því að hann er glöggur maður — að 26% heimila eiga í nokkuð miklum vanda.

Vandinn við tillögu hv. þingmanns er hins vegar sá að hún á að gagnast öllum, jafnt þeim sem eru í vanda og þeim sem eru ekki í vanda. Þar hætti ég að vera sammála honum um að takmörkuðum möguleikum ríkisins sé vel varið með því að hjálpa fólki sem getur hjálpað sér sjálft. Ég tel að við núverandi aðstæður berum við þunga samfélagslega ábyrgð í því að bjarga þeim sem erfiðast standa því að við höfum ekki fjármagn í ríkissjóði — t.d. vegna óábyrgra skattalækkana Framsóknarflokksins — til þess að hjálpa öllum.