137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:15]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gengur einfaldlega ekki upp að þessi kostnaður verði borinn af einhverjum öðrum en sameiginlegum sjóðum. Ég fór yfir það mjög ítarlega í ræðu minni áðan og tillögumenn hafa ekki fært fram nein trúverðug rök fyrir því af hverju erlendir kröfuhafar eiga að þurfa að þola að leggja eignir sínar á undirverði í hendur íslenska ríkinu svo íslenska ríkið geti gefið eftir tiltekinn hluta skulda umfram raunverulegt endurgreiðsluvirði þeirra. Það er hið óútskýrða undur í þessum tillögum sem hv. tillögumönnum hefur ekki á mörgum mánuðum tekist að koma með fullnægjandi skýringar á.

Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég sagði áðan. Það kann vel að vera að þetta sé almenn efnahagsaðgerð. Hún er dýr. Hún gagnast þeim sem ekki þurfa á að halda og hún er ekki fullkomlega sanngjörn vegna þess að það var til fólk, hv. þingmaður, sem ekki stofnaði til skulda. Það var til fólk á landsbyggðinni sem ekki hafði veðrými til að ráðast í þá miklu skuldsetningu sem var á höfuðborgarsvæðinu og tillögur Framsóknarflokksins ganga út á (Gripið fram í.) að það fólk eigi að borga. (Gripið fram í: Ríkið bjargaði þeim, hv. þingmaður.)