137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér sýnist hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra vera dálítið „svag“ fyrir því að segja að íslenskur almenningur eigi alfarið að axla byrðarnar af efnahagshruninu en það eigi ekki að dreifa því á einhvern hátt sanngjarnt á milli þeirra sem veittu lánin og þeirra sem þáðu þau. En það er meginþráðurinn í tillöguflutningi okkar, að dreifa þessum byrðum.

Hann fullyrðir að þetta sé dýr aðgerð og fer algerlega á svig við forsendur tillöguflutningsins um að kostnaður lendi ekki á sameiginlegum sjóðum ríkisins og landsmanna. Þá vil ég spyrja: Gefum okkur að það verði verulegar afskriftir af lánasöfnum fasteignalána þegar þær hafa verið fluttar úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju, segjum að það verði 50% eins og menn hafa verið að leiða líkur að, telur hann þá að það séu forsendur fyrir hendi til almennra afskrifta sem efnahagsaðgerð í íslensku samfélagi?