137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:18]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti áðan felst í því verði sem greitt er fyrir lánin úr þrotabúum bankanna — og það er ekki rétt sem hv. þingmaður segir að þeir sem veittu lánin beri enga ábyrgð, þeir eru farnir á hausinn, eigendurnir eru búnir að tapa sínu hlutafé. Það sem eftir stendur eru lánin sjálf sem íslenska ríkið kaupir úr þrotabúunum af eigendum lánanna sem eru þeir sem lánuðu bönkunum.

Eins og ég rakti áðan mun verðið á þeim lánum endurspegla vænt endurheimt hlutfall. Í því er ekki neitt loft sem gerir ríkinu kleift að gefa fólki peninga sem getur staðið í skilum með lánin því að verðið sem verður greitt fyrir þau lán, sama hvert það verður, hvort það eru 50% eða 75%, byggir á þeirri grunnforsendu að 75% eða 50% muni geta staðið í skilum með lánin sín. (Gripið fram í.)