137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða þingsályktunartillögu sem þingmenn Framsóknarflokks leggja fram. Þessi tillaga er ein af 18 efnahagstillögum sem kynntar voru ríkisstjórninni í febrúar þannig að það er ekki eins og þessi tillaga sé nýsprottin upp. Það sem er sorglegast við meðferð ríkisstjórnarinnar á þessari tillögu og öllum hinum sem ríkisstjórnin fékk á sínum tíma er að hún virðist hafa kosið að kynna sér tillögurnar ekki neitt heldur segja þær ómögulegar. Það hefur endurspeglast hvað eftir annað í orðum ráðherra ríkisstjórnarinnar og ekki síst í orðum hæstv. félagsmálaráðherra í dag.

Það er mjög sérkennilegt að ráðast með slíkri hörku að þessum tillögum sem hafa komið fram á sama tíma og ríkisstjórnin og þær aðgerðir sem hún hefur boðað eða sett fram duga ekki. Það eru ekki bara við hér inni sem segjum að þær dugi ekki, það gera einnig hagsmunaaðilar í samfélaginu og fólk úti í bæ. Þær aðgerðir sem eiga að hjálpa duga ekki. Þess vegna er mjög sérstakt að menn skuli halda áfram að hjakka í sama farinu, ríkisstjórnin slær allar aðrar hugmyndir út af borðinu. Tillaga okkar gekk upphaflega út á það, og gengur raunverulega út á það enn þá, að menn setjist niður og velti fyrir sér hvort hægt sé að útfæra þetta með þeim hætti að það hjálpi fleirum en við gerum ráð fyrir og sé til þess fallið að ríkisstjórnin geti orðið sátt við tillögur okkar en svo virðist því miður ekki vera.

Í fréttum í gær var viðtal við formann skilanefndar Glitnis þar sem hann talaði um skuldabréfasöfn, að þess konar íslensk lán væri verið að selja með 90% afslætti. Fréttastofan hafði heimildir fyrir því að verið væri að selja slík lán með 95% afslætti. Ég velti því þá fyrir mér, fyrst félagsmálaráðherra talar digurbarkalega um íslensk húsnæðislán, að komið hefur fram í fréttum að erlend húsnæðislán hafa verið seld eða eru mjög lítils virði. Gildir eitthvað annað um íslensk lán? Af hverju þá, ágæti hæstv. ráðherra?

Það er alveg ljóst að fjármagn sem kom inn í íslensku bankana erlendis frá er að miklu leyti tapað og tillaga okkar gengur einfaldlega út á að láta almenning og njóta þess að færa það tap sem orðið hefur til þeirra en ekki að láta ríkisbankana — flestallir bankar landsins í dag eru í eigu ríkisins — og ríkið njóta þessara afskrifta. Það hefur komið fram í tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna og ég ætla að lesa, með leyfi frú forseta, vitna aðeins í erindi sem þau skrifuðu. Hér stendur:

„Hratt hækkandi verðtryggðar skuldir eru langtímavandamál sem munu rýra kaupmátt í vaxandi mæli með tímanum og þannig draga úr sparnaði með einkaneyslu. Sífellt fleiri sjá fram á að eigin fé í fasteignum hverfur og breytist í skuldir á meðan innstæður í fjármálastofnunum eru varðar með almannafé og skuldir fjármálafyrirtækja eru afskrifaðar í mjög stórum tölum. Langflest kynntra úrræða koma fyrst til framkvæmda þegar heimilin eru komin í þrot eða þegar fólkið hefur misst vinnuna.“

Þetta segir allt sem segja þarf. Þær tillögur og aðgerðir sem hér er gumað yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar eru til þess að hjálpa fólki þegar það er komið á hnén fyrir framan stjórana í ríkisbönkunum. Því er mér alveg fyrirmunað að skilja hvers vegna ekki er vilji til að setjast niður og skoða þessa afskrift til heimilanna líkt og verið er að afskrifa til fyrirtækja.

Maður spyr sig líka: Hvaða rök eru að baki að gera þetta ekki? Í dag hljómar það eins og ríkisstjórnin sé komin í gríðarlega vörn vegna þess að þær aðgerðir sem hún hefur gripið til virka ekki og þær aðgerðir sem hún segist ætla að grípa til eru einhvers staðar í felum og virðist erfitt að finna þær. Ég velti því fyrir mér eftir að hæstv. félagsmálaráðherra varði áðan af mikilli hörku að greiða ætti eigendum lánanna, eins og hann kallar það, mikið og gott verð fyrir þessi lán, hvort það geti verið að það sé hreinlega búið að semja um það nú þegar. Getur verið að búið sé að semja við eigendur þessara lána um hvað þeir eiga að fá fyrir sinn snúð? Ég held að það sé ágætt að velta því fyrir sér ef ríkið ætlar ekki að láta eigendur lánanna tapa fjármagni en það er allt í lagi að heimilin borgi.

Í rökstuðningi með tillögunni eru færð rök fyrir því að þessi leið sé mjög sanngjörn því að hún kemur öllum jafnt til góða sem fengu vísitöluhækkun á lánunum. Þetta er í rauninni sama aðferð og aðrir tala um varðandi leiðréttingu á vísitölu. Með því að gera þetta með þessum hætti verður vandinn í kerfinu viðráðanlegri, skuldirnar sem eftir eru verða jafnaðar út, það verður einfaldara og auðveldara að ráða við vandann. Þessi leið er hagkvæm fyrir lánveitendur því að þeir munu að öllum líkindum fá meira fyrir sinn snúð, verði þessi leið farin, því að fleiri geta staðið í skilum. Erlendar rannsóknir hafa líka sýnt að lækkun á höfuðstól undirmálslána að lágmarki 20% leiðir til þess að fleiri geta staðið í skilum. Því furða ég mig alltaf jafnmikið á því þegar ég fer fyrir rökin að þessar hugmyndir skuli ekki vera skoðaðar betur. Ég segi enn og aftur: Það er ekki einstakt framtak Framsóknarflokksins að leggja fram þessa tillögu. Fjöldinn allur af sérfræðingum hefur tekið undir þetta, talar á svipuðum nótum og leggur í raun fram svipuð mál.

Það er ekki rétt að verið sé að verðlauna þá sem fóru eitthvað óvarlega. Þetta er til þess að jafna hag heimilanna, jafna hag þeirra sem eru með lán sem hækkuðu. Þau hækkuðu vegna þess að það varð hrun í samfélaginu en ekki vegna þess að þetta fólk fór ógætilega eða eitthvað slíkt.

Frú forseti. Eftir að hafa hlustað á hæstv. félagsmálaráðherra áðan velti ég aftur upp þeirri spurningu hvort harkan gegn þessu máli, gegn því að skoða þessa tillögu því að það sé snargalið að fara þessa leið, sé til komin vegna þess að ríkisvaldið sé búið að gera einhverja samninga sem við vitum hreinlega ekki um. Að það sé búið að semja um frágang á þessum skuldum. Er það eitt af því sem er í herberginu dularfulla?