137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:27]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að velta fyrir mér hugmynd. Ég veit ekki hvort það er eitthvert vit í henni en bíðum aðeins við, veltum aðeins fyrir okkur stöðu mála. Við höfum enn þá ekki náð landi með uppskiptingu á nýju og erlendu bönkunum, það gengur illa að semja við erlenda kröfuhafa um verð á þeim innlendu lánum sem ríkið vill taka yfir í nýju bankana. Af hverju skyldu erlendir kröfuhafar vera tregir til samninga? Gæti það kannski verið að þeir væru að fylgjast með pólitískri umræðu á Íslandi þar sem einn stjórnmálaflokkur er með þá hugmynd á lofti að afskrifa yfir 20% yfir allt, að ganga enn á kröfuhafana sem tapað hafa gríðarlegum fjármunum á því að lána Íslendingum pening, að ríkið ætli nú að kaupa kröfurnar og gefa 20% afslátt til viðbótar eða erlendu kröfuhafarnir sjálfir eigi að bera þessi 20%? Að sjálfsögðu bíða þeir rólegir og þeir eru eflaust að horfa á þessa útsendingu og semja þess vegna ekki við ríkið um þessa uppskiptingu.

Að þessu sögðu má svo spyrja: Eru það kannski hugmyndir Framsóknarflokksins um 20% niðurfellingu sem tefja endurreisn bankakerfisins? (Gripið fram í.)