137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef síður en svo verið á móti því og það er sjálfsagt mál að setjast yfir alla þessa hluti og skoða þá. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að hefja eigi starf sem miði að því að fara yfir umfang verðtryggingar í hagkerfinu, fara yfir grundvöll verðtryggingarinnar, þ.e. vísitölureikningana, og móta stefnu til framtíðar litið um það hvernig við ætlum að vinda ofan af henni í samfélaginu.

Varðandi þá spurningu sem snýr að ályktun okkar er ég þeirrar skoðunar að hún sé góð og t.d. sú hugsun sem við höfum mikið skoðað í okkar flokki hvort ekki sé viðráðanlegt og einhverjir möguleikar til þess t.d. að frysta og geyma einhvern hluta hækkunar höfuðstóls verðtryggðra lána vegna þessa snögga verðbólguskots, sem vonandi verður ef verðbólgan heldur áfram niður, hvort það geti ekki verið viðráðanleg aðgerð. Þá erum við í rauninni að geyma málið um sinn þangað til árar vonandi betur í samfélaginu til að takast á við það. En þau úrræði sem þegar eru í boði ganga út á nákvæmlega þetta. Greiðsludreifingin, greiðsluaðlögunin er nákvæmlega þetta, að hluti vandans er frystur og hann er geymdur og svo ætla menn að sjá til (Forseti hringir.) hvort menn ráða við hann síðar eða hvort um einhverjar afskriftir verður að ræða í tilviki greiðsluaðlögunarinnar.