137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að tala aðeins út frá sjálfum mér. Ég get ekki skilgreint stöðu mína sem ungs heimiliseiganda öðruvísi en að ég sé í skuldafangelsi vegna þess að forsendur lántöku minnar hafa algerlega brostið og verðfall hefur orðið á eign minni. Þetta þýðir að ég mun ekki geta selt eign mína án þess að koma út skuldugur eftir þá sölu, en ekki var lagt upp með það.

Ég gæti búið í þjóðfélagi eins og Danmörku þar sem ekki eru verðtryggð fasteignalán og þar er í mörgum tilvikum hámark á vöxtum. Efnahagshrun eins og það sem við höfum orðið fyrir hefði ekki bitnað á mér með þessum hætti. Verið er að tala um alhliða forsendubrest í íslensku samfélagi og ég nefni dæmi út frá mér sjálfum. Mér finnst skilaboð hæstv. ríkisstjórnar dálítið vera þannig að ég eigi á einhvern hátt að éta það sem úti frýs.

Það er áríðandi að koma til móts við þá almennu stöðu íslenskra lántakenda að höfuðstóll lána þeirra óx um 20% og í því er fólginn harmleikur. (Forseti hringir.) Ef ekki verður tekið á því með einhverjum almennum aðgerðum, hvaða (Forseti hringir.) aðgerðir aðrar boðar þá fjármálaráðherra almennar og jafnar til að örva efnahagslífið og (Forseti hringir.) til að hjálpa fólki að komast út úr þessari stöðu?

(Forseti (SF): Forseti biður hv. þingmann að virða ræðutímann.)