137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að fram hafi komið í ræðu hæstv. forsætisráðherra í gær að það séu ekki fyrst og fremst atvinnulausir sem eru í þessum hópi, sem eru ekki með svokallaðar viðráðanlegar húsnæðisskuldir heldur sé töluverður hópur sem væntanlega er í vinnu. Talað er um þá sem eru með minna en 250 þús. kr. í ráðstöfunartekjur, ég veit ekki til þess að atvinnuleysisbætur séu 250 þús. kr. Því má gera ráð fyrir að stór hluti af því fólki sem væntanlega ræður ekki við greiðslu af skuldum sínum er ekki atvinnulaus.

Síðan mundi ég líka gjarnan vilja heyra frá hv. þm. Pétri Blöndal varðandi þau rök sem fram hafa komið þess efnis að það að veita t.d. gengistryggðu lánin hafi verið andstætt lögum og það liggi algerlega fyrir að ekki hafi verið heimilt að binda skuldbindingar í íslensku krónunni við gengi erlendra gjaldmiðla og ekki dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Síðan einnig rökin um að forsendur séu algerlega brostnar fyrir lánasamningum, sérstaklega í ljósi þess að æðstu stjórnendur gömlu bankanna og hluti af stærstu eigendum ollu viðskiptamönnum sínum miklu tjóni með því að vinna af krafti gegn gengi íslensku krónunnar og hagkerfinu öllu sem hefur valdið lántakendum gríðarlegu tjóni. Fram hafa komið rök þess efnis að þegar menn hafa svona miklar áhyggjur af kostnaðinum sem mun falla á ríkissjóð sé það algerlega ljóst að ef dæmt verður samkvæmt þessum málum mun tjónið lenda af fullum þunga á ríkissjóði vegna þess skaða sem gömlu bankarnir ollu lántakendum sínum.