137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

18. mál
[17:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að hafa mælt fyrir þessu máli en mikill fjöldi þingmanna styður hv. þingmann í þessum málflutningi því að við ræðum hér um mjög stórt mál, mikilvægt atvinnumál til framtíðar og það veitir ekki af á þessum síðustu og verstu tímum að ræða slíkt á Alþingi. Það skiptir miklu máli hvaða veganesti hæstv. umhverfisráðherra ætlar að fara með til Kaupmannahafnar þegar við sem þjóð munum semja um skuldbindingar á þessu sviði.

Ég held í ljósi þess að við búum við atvinnuleysi — það eru 17 þúsund Íslendingar án atvinnu, það er nær engin erlend fjárfesting hér á landi — að það eigi að vera forgangsverkefni núverandi ríkisstjórnar að halda öllum möguleikum opnum. Ég er ekki einn af þeim sem vilja setja álver, svo góð sem þau eru, niður í hvern einasta fjörð á landinu, það er margt annað til en þau. Ég held að þessi ríkisstjórn eigi að skapa svigrúm fyrir íslenska þjóð svo að við getum byggt upp hugsanlega kísilflöguverksmiðju, mögulega hátæknigarða eða gagnaver, starfsemi sem þarf á raforku að halda og útheimtir starfsfólk með mjög fjölbreytilega menntun. Það væri mjög slæmt ef það ákvæði sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir barðist fyrir á sínum tíma og við köllum „íslenska ákvæðið“ yrði — eigum við ekki bara að orða það eins og núverandi hæstv. utanríkisráðherra orðaði það — hlegið út af borðinu í viðræðum núverandi ríkisstjórnar. Það hafði enginn trú á því í stjórnarandstöðunni þá að þáverandi hæstv. umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttur mundi takast að ná þessu íslenska ákvæði í gegn en sú varð nú reyndin á endanum.

Þar sem ég tel mig ekki vera neinn umhverfissóða og horfi á umhverfismál í mjög víðu samhengi vil ég líta á þessi mál út frá hnattrænum sjónarmiðum. Miðað við þá staðreynd að það mengar 6–8 sinnum meira að reka t.d. álver sem gengur fyrir olíu eða kolum hlýtur sú starfsemi að vera mun umhverfisvænni hér á landi en í þeim löndum þar sem slíkt eldsneyti er notað.

Þegar við horfum á stöðu Íslands í samhengi við aðrar þjóðir, þegar reikna átti út frá hvaða forsendum mengunarkvótar hvers lands væru, verðum við að hafa í huga að árið 1990, sem er viðmiðunarárið, vorum við Íslendingar búnir að hitaveituvæða nær allt samfélagið — við erum einstakt land að því leytinu til — á meðan aðrar þjóðir nota olíu og kol til þess að kynda upp húsnæði sitt. Íslendingar eru því mjög umhverfisvænir að þessu leyti og það er horft til Íslands í þessu samhengi sem fyrirmyndarlands vegna þess hvernig við nýtum endurnýjanlega orkugjafa frekar en olíu og kol.

Ég tel því að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða, það er mjög mikilvægt fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar hvernig ríkisstjórnin ætlar að halda á þessum málum. Ég sakna þess að hér skuli ekki vera ráðherrar úr ríkisstjórninni við umræðu um þetta mál. Mér er reyndar sagt, svo að við gætum sanngirni, að hæstv. umhverfisráðherra sé löglega forfölluð, en þetta er stórt mál og ég hefði haldið að í máli sem þessu ættu þingmenn allra flokka að koma að umræðunni því að við ræðum um möguleika Íslendinga í atvinnuuppbyggingu til framtíðar litið.

Ég styð það því eindregið að ríkisstjórnin fari með háleit markmið í þessum málum þannig að við höfum svigrúm til þess að fjölga atvinnutækifærum í framtíðinni. Inn í þessa umræðu hlýtur líka að blandast sú stefna ríkisstjórnarinnar að byggja álver í Helguvík. Það var staðfest og var lögð fram stjórnartillaga um það á síðasta þingi sem allir flokkar aðrir en Vinstri grænir stóðu að. Atvinnuuppbygging þar mun á löngu tímabili skapa þúsundir starfa og veitir ekki af ef við horfum til ástandsins í Reykjanesbæ þar sem um 20% atvinnuleysi er í dag. Við getum ekki verið með einhverja fordóma gagnvart einstaka tegundum af atvinnustarfsemi á þeim tímum sem við lifum nú. Og ef við horfum til framtíðar, horfum jafnvel til uppbyggingar á gagnaverum eða hátæknigörðum, gæti verið hér einhvers konar Silicon Valley þess vegna. Það þarf svigrúm til þess að geta komið nýrri atvinnustarfsemi á fót, það skiptir máli og því vil ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að leggja þetta mál fram. Ég vona að það hljóti mikla athygli í samfélaginu vegna þess að það sem við ræðum um hér eru hagsmunir allra Íslendinga til langrar framtíðar.

Þess vegna tel ég brýnt að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt þannig að umhverfisráðherra, sem kemur úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, hafi það í farteskinu að gæta ýtrustu hagsmuna Íslendinga og viðhalda því íslenska ákvæði sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir barðist fyrir á sínum tíma að kæmi inn og hefur haft veruleg áhrif í atvinnusögu þessarar þjóðar. Ég stend hér stoltur sem fulltrúi Austfirðinga á þingi þegar við minnumst þeirrar miklu atvinnuuppbyggingar sem átti sér stað m.a. á Reyðarfirði með uppbyggingu álversins þar. Það er einstakt að koma á þann vinnustað og borða hádegismat með 300–400 manns sem starfa og borða þar á hverjum degi, margt mjög vel menntað fólk, fólk sem flust hefur austur. Þessi uppbygging hefur blásið þvílíku lífi í fjórðunginn og ég hugsa oft með mér: Hver væri staðan á Austurlandi í dag ef við hefðum ekki barist fyrir þeirri atvinnuuppbyggingu sem við komum þar á fót á sínum tíma því að hún hefur haft heilmikil áhrif á búsetuþróun þar?

Það sýnir sig í þessu máli að við skulum ekki loka neinum dyrum og við skulum horfa til framtíðar, ekki bara gagnvart álverum heldur margs konar framleiðslu sem krefst orku og við útilokum ekkert í þeim efnum. Ef við ætlum að fara í þessar viðræður með það að markmiði að minnka þessar heimildir erum við að skerða möguleika Íslands til framtíðar litið gagnvart því að fjölga hér störfum og að komast út úr þeim efnahagsþrengingum sem hér eru. Við þurfum að auka verðmætasköpunina í samfélaginu til þess að við náum að greiða þá himinháu víxla sem blasa við okkur í kjölfar efnahagshrunsins. Við þurfum að horfa til framtíðar og þetta er að mínu viti mjög framsýn þingsályktunartillaga sem gerir ráð fyrir því að við höldum opnum dyrum í atvinnuuppbyggingu hér á landi og séum ekki með einhverja fordóma gagnvart ákveðnum tegundum af atvinnuuppbyggingu því að við höfum einfaldlega ekki efni á því í dag.