137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[17:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að fá örlitlar upplýsingar ef hv. þm. Helgi Hjörvar getur veitt mér þær. Í greinargerð kemur fram að fordæmi þessa séu á Norðurlöndunum og Þýskalandi, og þá fór ég að velta fyrir mér hversu stórir aðilar eða hversu stór hluti á fasteignamarkaðnum er í höndum þessara aðila. Ég velti fyrir mér hvort slíkar upplýsingar liggi fyrir, ef ekki verðum við okkur bara úti um þær fyrir næstu umræðu.

Það sem vekur upp þessar spurningar hjá mér er hvort einhver hætta sé á því að lífeyrissjóðir eða aðili sem er með svona gríðarlega mikið fjármagn og á mikið undir, í t.d. húsnæði, geti orðið mjög ráðandi í verðmyndun á markaðnum, þ.e. að hann geti stjórnað svolítið mikið — eða bara stjórnað því hvernig húsnæðisverð er á hverjum tíma. Þess vegna fór ég að hugsa um hvort á öðrum stöðum sé einhvers konar takmörkun á því eða einhvern veginn komið í veg fyrir það.