137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég held að þær séu sannarlega allrar athygli verðar, en ég hef ekki handbærar staðfestar tölur að þessu leyti, ég vil því ekki fara með þær. Þetta eru munnlegar upplýsingar frá staðkunnugum mönnum, en ég tel eðlilegt að nefndin kalli eftir því í umfjöllun sinni.

Ég held að hitt sé að sínu leyti rétt að umsvifamiklir aðilar, eins og sjóðir af þessu tagi, geta auðvitað haft ákveðin áhrif á verðmyndun á markaði, en það getur líka orðið til þess að skapa meiri stöðugleika í verðinu á markaði. Auðvitað eru lífeyrissjóðirnir gríðarlega umfangsmiklir í fjármögnun íbúðarhúsnæðis nú þegar en við höfum haft þann háttinn á að þeir hafa fjármagnað bæði Íbúðalánasjóð og eins að talsverðu leyti bankana sem svo aftur hafa lánað fólki til íbúðarkaupa, og síðan hafa þeir sjálfir lánað fólki til íbúðarkaupa. Þeir eru því mjög umfangsmiklir í fjármögnun á fasteignamarkaði nú þegar. Að hafa áhyggjur af samkeppnissjónarmiðum í þessu er vissulega fullkomlega málefnaleg ábending og ástæða fyrir nefndina að gæta vel að þeim sjónarmiðum.