137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[17:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með það að hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Magnús Orri Schram skuli hafa lagt þetta mál fram án þess að ég ætli fyrir fram að móta mér skýra afstöðu í því, því að við eigum eftir að fara yfir kosti þess og galla í umfjöllun efnahags- og skattanefndar. Hér er a.m.k. viðleitni til að koma fram með tillögur sem horfa mögulega til framfara í samfélaginu og eiga hv. þingmenn hrós skilið fyrir það.

Ég vil spyrja hv. þm. Helga Hjörvar hvort hér sé í raun og veru verið að ræða möguleika á að lífeyrissjóðir geti fjármagnað íbúðir fyrir eldri borgara, jafnvel hjúkrunarheimili, hver hugmyndin sé í þeim efnum. Við þekkjum hugmyndir manns sem kenndur er við Góu og heitir Helgi sem hefur talað mikið fyrir því að lífeyrissjóðirnir eigi að beita sér í samfélagslegum verkefnum. Ég skil þetta frumvarp þannig að ekki sé verið að beita neinum lögþvingunum heldur að um væri að ræða heimild til handa lífeyrissjóðunum um að ráðast í slík verkefni.

Ég vil spyrja hv. þingmann af því að við erum komin inn á þessa braut í samfélagsleg verkefni, hvort hann geti tekið undir það að við mundum skoða það í nefndinni að lífeyrissjóðir gætu komið að einkaframkvæmdum til að mynda í vegamálum, ef við tökum sem dæmi framkvæmd eins og Vaðlaheiðargöng þar sem gerðar eru áætlanir og notendur þeirrar þjónustu mundu greiða vegtoll. Í dag er mikil þörf á fjármunum til slíkra framkvæmda, framkvæmda sem munu að öllum líkindum standa undir sér. Við yrðum að veita ríkisábyrgð á slíkar framkvæmdir á endanum en það gæti liðkað fyrir auknum framkvæmdum í samfélaginu. Ég spyr: Telur hv. þingmaður koma til greina að við skoðum slíka opnun í nefndinni að lífeyrissjóðirnir fái slíka heimild?

Ég vil í annan stað spyrja hv. þingmann í ljósi þess að lífeyrissjóðirnir munu að mínu viti gegna lykilhlutverki í þeirri endurreisn sem blasir við okkur og þar liggja gríðarlegir fjármunir inni sem við getum notað til atvinnuuppbyggingar um leið og lífeyrissjóðirnir fá ávöxtun af fjármunum sínum. Við framsóknarmenn lögðum fram þingsályktunartillögu í febrúar sl. um að heimila lífeyrissjóðum gjaldeyrisviðskipti, þ.e. opna á það að lífeyrissjóðirnir megi eiga viðskipti með gjaldeyri og að komið yrði á fót sérstökum uppboðsmarkaði með gjaldeyri í Seðlabanka Íslands. Þannig gætu óánægðir erlendir eigendur hér á landi komið gjaldeyri sínum úr landi en lífeyrissjóðirnir gætu á hagstæðu gengi komið með fjármuni til landsins sem þeir gætu fjárfest í íslensku atvinnulífi. Telur hv. þingmaður að það gæti komið til greina að fara í þessa vegferð? Mér heyrist að það sé kominn ákveðinn hljómgrunnur í það núna ef marka má Morgunblaðið í dag en á forsíðu blaðsins segir að nú séu stjórnvöld í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að skoða akkúrat þetta sem er tillaga sem framsóknarmenn lögðu fram fyrir nokkrum mánuðum síðan og við vildum endilega að þáverandi ríkisstjórn mundi skoða betur en því miður var það ekki gert.

En í ljósi þess hvernig hv. þingmaður fer af stað í starfi sínu sem formaður efnahags- og skattanefndar, og ég vil að það komi fram, þá finnst mér sú byrjun lofa mjög góðu og hv. þingmaður á hrós skilið fyrir það hvernig hann hefur haldið á störfum það sem af er, þar sem hann hefur tekið mjög ríkulega tillit til sjónarmiða stjórnarandstöðunnar. Síðan eigum við reyndar eftir að sjá hver útkoman úr þeirri vinnu verður en mér finnst hv. þingmaður slá nýjan tón að verulegu leyti í því hvernig hann stýrir nefndarfundum. Því kem ég upp í fullri einlægni og spyr hv. þingmann út í þessar hugleiðingar mínar, fyrst spurningar varðandi hlutverk lífeyrissjóðanna, hvort við séum að opna á það að þeir geti byggt hjúkrunarheimili eða íbúðir fyrir eldri borgara. Í annan stað hvort lífeyrissjóðirnir eigi að fá heimild til að koma að einkaverkefnum til að mynda á sviði samgöngumála. Í þriðja lagi hvort hann vilji og telji rétt að við reyndum að létta þrýstingi á íslensku krónuna með því að heimila lífeyrissjóðum viðskipti með gjaldeyri og þannig gætu þeir komið heim með þó nokkra fjármuni á meðan þeir aðilar sem vilja losa fjármuni sína úr landi gætu gert það. Reyndar yrði þá niðurstaðan trúlega sú að lífeyrissjóðirnir mundu fá mjög gott verð fyrir sinn erlenda gjaldeyri þegar heim væri komið.

Þetta eru efnislega þær spurningar sem ég legg fyrir hv. þingmann um leið og ég hlakka til samstarfsins á vettvangi nefndarinnar. Ég tel að við eigum að horfa mjög víðtækt til hlutverka lífeyrissjóðanna á þessum tímum og ég minni á að það hafa verið uppi hugmyndir um að stofna endurreisnarsjóð atvinnulífsins sem lífeyrissjóðirnir mundu koma að. Því miður hefur ekki getað orðið af því og ég segi enn og aftur því miður af því að íslenskt atvinnulíf vantar sárlega fjármagn. Það er algert frost í íslensku efnahagslífi og allt sem getur til framfara horft fyrir íslenskt atvinnulíf mun leiða það af sér að störfum í íslensku samfélagi mun fjölga. Verðmætaaukning mun eiga sér stað og þar með minnkar atvinnuleysi og við getum þá vonandi farið að snúa hjólum efnahagslífsins af stað aftur þannig að við þurfum jafnvel ekki að grípa til viðamikilla aðgerða í ríkisfjármálum, enn meiri niðurskurðar sem mun leiða það eitt af sér að kreppan verður miklu dýpri en ella. Við þurfum að leita allra leiða til að grynnka þá kreppu sem blasir við okkur. Í því ljósi ber ég fram þessar spurningar til hv. þingmanns.