137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég krefst þess að þessum degi verði ekki eytt í einhverja umræðu um samþykki gamalla EES-mála en við tökum hér til umræðu stöðuna í Icesave-málinu og að leynd verði aflétt af því sem kom fram á fundi utanríkismálanefndar í morgun.

Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir í þinginu fyrir aðeins tveimur dögum að það væri verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær væru ekki hafnar heldur væru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Svo sagði hann, með leyfi forseta:

„Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd …“

Hæstv. fjármálaráðherra fór þar með rangt mál, hann sagði þinginu ósatt. Ég krefst þess, hæstv. forseti, að ekki verði rædd önnur mál hér fyrr en þingið hefur fengið tækifæri til að ræða þessi Icesave-mál.