137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Það er stutt síðan við vorum að ræða um 20% leiðréttinguna á skuldum heimilanna. Mér reiknast til samkvæmt fréttum RÚV að verið sé að tala um að 25% í Icesave-skuldbindingunum falli á ríkið, um 160 milljarðar, en inni í þessari tölu er ekki vaxtakostnaðurinn. Ef við bætum honum við getum við væntanlega gert ráð fyrir að talan sé einhvers staðar á bilinu 280–300 milljarðar. (Gripið fram í.) 400 milljarðar er leiðrétt hérna. Hæstv. forsætisráðherra benti einmitt á það hér að ríkissjóður mundi nánast fara á hliðina ef leiðrétta ætti skuldir heimilanna um 285 milljarða. Við erum því að gefa Bretum sömu upphæð, nei, meira, næstum því tvöfalt meira, án þess að það sé á hreinu hvort okkur beri lagaleg skylda til þess.

Ég verð að segja það, þó að ég telji mjög mikilvægt að við ræðum lagabreytingu um vexti og verðtryggingu, að að sjálfsögðu hefði átt að vera búið að setja þetta mál á dagskrá þingsins. Það er algjör óhæfa að einhver leynd eigi að hvíla (Forseti hringir.) yfir þessu máli eins og Steingrímur J. Sigfússon (Forseti hringir.) hefur svo margítrekað sjálfur í fyrri ræðum sínum.