137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:39]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Ég er sama sinnis og þeir sem hafa talað á undan mér. Það er búið að kynna þetta Icesave-mál fyrir Borgarahreyfingunni og af hennar hálfu er það algjörlega óásættanlegt að farið skuli vera með málið sem mannsmorð og það ekki kynnt fyrir þjóðinni. Við gerum þá kröfu til forsætisráðherra að hún upplýsi nú þegar alla þætti málsins fyrir þjóðinni, fyrir kvöldmat í dag, því að þarna er um að ræða hundruð milljarða króna sem munu velta yfir á þjóðina næstu áratugi. Það er algjörlega óásættanlegt að þjóðin skuli ekki upplýst um þetta og það er algjörlega óásættanlegt að forsætisráðherra skuli koma fram í fjölmiðlum í hádeginu og halda því fram — án þess að hún hafi hugmynd um það — að 75% af þessari upphæð muni endurheimtast af eignum Landsbankans. Það er bara ekki vitað, hún fer með rangt mál og hún er að halda áfram sama blekkingarleik og viðgekkst hér (Forseti hringir.) í aðdraganda hrunsins. Það er skammarlegt. Við mótmælum þessu og við krefjumst þess að þetta mál verði tekið á dagskrá.