137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:50]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Til hvers erum við hér? Hver kaus okkur á löggjafarsamkomuna fyrir nokkrum vikum síðan? Núna þegar við erum bundin trúnaði af einni mestu skuldbindingu sem Íslendingar hafa undirgengist í lýðveldissögunni hlustum við á ráðherra í ríkisstjórninni tala eins og ókrýndir sigurvegarar um að þeir hafi unnið einhver stórkostleg afrek. Það er fölsun.

Það er eðlilegt, frú forseti, að orðið verði við þeirri kröfu okkar stjórnarandstæðinga — vegna þess að ekki sjást stjórnarliðar við þessa umræðu — að fundinum verði frestað þannig að forustumenn þingflokkanna geti talað saman á viðeigandi vettvangi þannig að Alþingi sé sómi sýndur og þingmenn axli þá ábyrgð sem þeir voru kjörnir til, að fjalla vandlega um málið. Við megum ekki einu sinni tjá okkur um þessi mál en þó (Forseti hringir.) heyrum við ráðherra í ríkisstjórn Íslands tjá sig mjög fjálglega um þetta. (Forseti hringir.) Þetta er algjörlega óviðunandi, frú forseti, og þingið setur niður ef ekki á að grípa til einhverra aðgerða hér (Forseti hringir.) og kalla formenn þingflokkanna saman. Ég spyr enn og aftur, frú forseti: (Forseti hringir.) Ætlar forseti þingsins ekki að gera hlé á fundi Alþingis til að forustumenn þingflokka (Forseti hringir.) geti a.m.k. talað saman um málið?