137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hafa talað í dag og krafist þess að fundi sé frestað þannig að formenn þingflokka geti rætt þetta mál og komist að því hvort draga muni til tíðinda í dag í þessu máli. Sú lauslega reifun sem þingflokkarnir fengu í dag á málinu er alls ekki fullnægjandi. Þetta er eitt stærsta mál sem komið hefur fyrir Alþingi Íslendinga varðandi fjárhagslegar skuldbindingar og það er ekki samboðið virðingu Alþingis eða þeirra sem hér sitja og eru kosnir hingað inn af þjóðinni að fá engar upplýsingar í slíku máli og heyra um það í fjölmiðlum sem á að gæta trúnaðar um.

Þetta eru ekki vinnubrögð sem ég taldi að ég mundi upplifa á þinginu. Þetta er ekki til sóma fyrir íslenska ríkisstjórn og þetta er ekki í samræmi við þau vinnubrögð sem lofað var í kosningabaráttunni af þeim flokkum sem skipa ríkisstjórnina að hér yrðu viðhöfð.