137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma í þennan ræðustól til að bera aðeins blak af ríkisstjórninni því að það er ekki rétt sem hér hefur verið haldið fram að þetta séu einstæð vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þetta eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, svona eru þau. Þau eru nákvæmlega þessi: Það er mjög einbeittur vilji hjá ríkisstjórninni til að sniðganga þingið og það er auðvitað það sem verið er að sýna með þessu máli hérna.

Nú háttar svo til að í hliðarsal er tölva og í tölvunni getum við núna lesið nákvæmlega allar upplýsingar um greiðslukjör og þess háttar hluti sem snúa að þessu máli en þingmenn geta ekki rætt þessi mál efnislega. Hæstv. forsætisráðherra gerði það í útvarpinu í hádeginu meðan við hin, þingmennirnir, erum að ræða þessi mál undir trúnaði en hæstv. forsætisráðherra rýfur þann trúnað með þessum hætti. Þetta eru auðvitað ótrúleg vinnubrögð en algjörlega í samræmi við það sem maður á að venjast af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, þ.e. einbeittur vilji til að sniðganga þingið og ganga fram hjá því, líka í svona stórum málum.