137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Aðeins út af orðum hv. þm. Róberts Marshalls. Það er skoðun stjórnarandstæðinga að hér hafi ekki verið framið valdarán og þess vegna hafi Alþingi töluvert hlutverk. En það er eins og ekki sé ætlast til þess að Alþingi hafi neina aðkomu að þessu máli og það vekur auðvitað miklar áhyggjur með okkur sem höfum áhuga á því að þingið hafi aðkomu að málinu og hér ríki þingræðisleg vinnubrögð. (Gripið fram í.)

Hér er það þannig að hv. þingmenn hafa núna í um það bil klukkutíma beðið hæstv. forseta um að fresta þessum fundi, gefa færi á því að formenn þingflokka geti rætt málin til að tryggja það að málið sem hér er verið að ræða svona undir rós geti komist dagskrá Alþingis og við fáum svör við hlutunum. Við fáum engin svör, okkur er sagt að þessi mál verði rædd einhvern tíma en það eru auðvitað ekki nokkur svör. Auðvitað koma þessi mál með einhverjum hætti til umræðu á Alþingi einhvern tíma en það er ekki það sem við erum að biðja um. Við erum að biðja um að það verði gert núna og það verði hægt að ræða þessi mál í þaula áður en skrifað verður undir þá samninga sem sagt er að séu tilbúnir. Ég spyr hæstv. forseta: Vill ekki hæstv. forseti greiða fyrir þingstörfum og taka af skarið, fresta þessum fundi og setja á fund með (Forseti hringir.) formönnum þingflokka? Er ekki svo að hæstv. (Forseti hringir.) forseti metur það þannig með okkur að það sé mikilvægara að ræða Icesave-málin en frumvarp til laga um (Forseti hringir.) vátryggingastarfsemi, gildissvið og starfshætti?