137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé mikilvægt að fram komi að Alþingi fól framkvæmdarvaldinu að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu og á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem ríkisstjórn samþykkti í nóvembermánuði sl. og hefur verið kallað Brusselniðurstaðan eða Brusselreglurnar.

Stjórnarandstöðunni, utanríkismálanefnd, forustumönnum stjórnarandstöðunnar og þingflokkum var í dag kynnt staðan í samningaviðræðum, í þreifingum sem fara fram milli aðila (Gripið fram í.) í ljósi þess að upp er komin sú staða í þeim viðræðum að mögulega kunni að vera þar lending í sjónmáli. (Gripið fram í: Rangt.) Það var gert hlé á þessum viðræðum til þess að hægt væri að setja ríkisstjórn, forustumenn stjórnarandstöðunnar, utanríkismálanefnd og alla þingflokka á Alþingi (Gripið fram í: Og fjölmiðla.) inn í stöðu málsins. Fjölmiðlar hafa að sjálfsögðu getið sér til um þessa hluti og spyrja um þá.

Að öðru leyti verð ég að segja, frú forseti, að það eru auðvitað ekki aðstæður til að ræða þetta efnislega undir þessu fundarformi en að sjálfsögðu verður það gert við fyrsta mögulegt tækifæri eftir því sem efni málsins gefa tilefni til.