137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:28]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. fjármálaráðherra er genginn í salinn. Af því tilefni langar mig til að bera upp við hann spurningu vegna þess að það er dálítið málum blandið hvenær gengið verður frá þessu samkomulagi og það skiptir verulegu máli þegar til á að taka hvernig þingið á að koma að því.

Á miðvikudaginn var sagði hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga …“

Af þessu tilefni er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvort það sé alveg ljóst að ekki standi til að ganga frá Icesave-málinu næstu daga. Í því sambandi er nauðsynlegt fyrir okkur að vita hvenær ætlast er til þess að þingið komi að því máli ef það er þannig að það eigi að gera það þegar búið er að ganga frá samningnum. En númer eitt, tvö og þrjú þá skiptir máli: Er þetta réttur skilningur og stendur hæstv. fjármálaráðherra við það sem hann sagði hér, að ekki verði gengið frá þessu máli einhverja næstu daga?