137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

meðferð ríkisbanka á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum.

[14:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda kærlega fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga mál, hvað verður um íslensk fyrirtæki í því erfiða ástandi sem við búum við og með þessum háu stýrivöxtum sem eru þeir hæstu á byggðu bóli, því að ríkisstjórnin, Seðlabankinn og peningastefnunefnd hafa ekki dug í sér til að lækka stýrivexti til að atvinnurekstur geti verið með eðlilegum hætti hér á landi vegna ofurvalds að utan.

Staða fyrirtækja í landinu er mjög slæm og versnar með hverjum degi og hverri viku. Það er því mjög athyglisvert að heyra hæstv. fjármálaráðherra tala hér um eignaumsýslufélög banka og fjármálafyrirtækja. Fyrir minn smekk verða þau orðin nokkuð mörg ef allar bankastofnanir eiga að hafa slík eignaumsýslufélög, því að eftir því sem ég best veit stendur einnig til að stofna eignaumsýslufélag ríkisins sem sérstaklega erfið og skuldsett félög sem hafa mikla samfélagsábyrgð, fara inn í.

Ég var svo heppin að sitja einn fund efnahags- og skattanefndar þar sem komu margir góðir gestir sem upplýstu nefndarmenn um hinar ýmsu hættur sem ber að varast varðandi eignaumsýslufélag ríkisins og jafnframt bankanna. Þangað komu m.a. fulltrúar frá þremur stærstu ríkisbönkunum og kynntu fyrir nefndinni hvar eignaumsýslufélög þeirra eru stödd í kerfinu.

En þarna voru, frómt frá sagt, ákveðnir fulltrúar sem settu sig mjög á móti því að bankarnir hefðu eignaumsýslufélög því að í fyrsta lagi gildir bankaleynd í slíkum félögum þannig að hafi einhvern tíma eitthvað rangt verið gert eða á gráu svæði eða jafnvel ólöglegt í lánveitingum til fyrirtækja á markaði mundi það sukk halda áfram í eignaumsýslufélaginu. Nefndarmenn voru varaðir við að slík leið yrði farin á þessum (Forseti hringir.) forsendum því að annars mundi hin alræmda bankaleynd og ólöglegir gjörningar jafnvel halda áfram (Forseti hringir.) í hinum nýstofnuðu ríkisbönkum, sem er að vísu ekki búið að stofna (Forseti hringir.) og ég tek ítreka: Hvenær á eiginlega að stofna þá?