137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[15:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég er að velta því fyrir mér í ljósi mikilvægis þeirrar umræðu sem hér fer fram hvort hæstv. forseti muni beita sér fyrir því að kalla hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra til þingsalarins. Ég vil minna á að þingmennskunni fylgir sú skylda að vera viðstaddur umræður eða fylgjast með þeim. Ég legg mikla áherslu á það í ljósi mikilvægis málsins að hæstv. ráðherrar komi til þessarar umræðu, sýni þinginu þá virðingu að vera hér viðstaddir því að við vitum svo fátt í þessu stóra máli, hvenær eigi að skrifa undir til dæmis. Ég trúi því ekki að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ætli að skrifa undir skuldbindandi samkomulag, ætli að skuldbinda íslensku þjóðina — kannski er þetta mesta skuldbinding í sögu lýðveldisins — án þess að bera það formlega undir þingið eða kynna það með viðunandi hætti. Það er verið að traðka á þingræðinu. Það er verið að traðka (Forseti hringir.) á lýðræðinu ef það á að halda svona áfram. Því spyr ég frú forseta hvort hún hyggist (Forseti hringir.) beita sér fyrir því að kalla þessa tvo ráðherra hingað til þingsalarins.