137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[15:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að upplifa þá lítilsvirðingu sem er verið að sýna hér þingheimi af hæstv. ríkisstjórn. Hvað með allar fyrri yfirlýsingar þessa ágæta fólks um gagnsæi, lýðræði og málefnalega umræðu? Við erum hér að fjalla um eitt mikilvægasta mál sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir, sem við sem þingmenn stöndum frammi fyrir og þær upplýsingar sem við höfum fengið, hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni, eru svona um það bil 15–20 mínútna kynning á þessu máli þar sem við vorum beðin um trúnað sem við lásum síðan allt um í blöðunum eða á netmiðlunum stuttu seinna.

Það er skýlaus krafa að þetta mál verði tekið hér til málefnalegrar umræðu, að hæstv. forseti sjái til þess að þetta mál verði rætt hér utan dagskrár í dag (Forseti hringir.) og það verði gefinn lengri ræðutími í því. Ef einhvern tímann (Forseti hringir.) er tilefni til þess þá er það við þessar aðstæður.