137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[15:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við enn að ræða þá staðreynd að þingið virðist standa frammi fyrir orðnum hlut. Það er mjög alvarlegt hvernig að þessu er staðið ef það er rétt sem hefur verið sagt hér að það er um það bil verið að fara að skrifa undir þessa samninga. Þá er svartur dagur í sögu þjóðarinnar runninn upp. Það er verið að skuldbinda þjóðina fram í tímann, langt fram í tímann. Það er verið að afsala okkur að nokkru leyti fullveldinu. Það er verið að skuldsetja næstu kynslóðir.

Samt er aðalmálið í þessu að hæstv. fjármálaráðherra sagði hér ósatt fyrir tveimur dögum. Hann sagði þinginu ósatt. Hann sagðist ekki kannast við að nokkurs staðar væri til staðar einhver samningur sem ætti að fara að undirrita, hvað þá heldur meir, eða yfir höfuð samningur um það hvernig ætti að leysa þetta Icesave-mál.

Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að endurskoða stöðu sína sem ráðherra. Það að segja þinginu ósatt er grafalvarlegt (Forseti hringir.) og jaðrar við að það þurfi að víkja hæstv. fjármálaráðherra frá og vísa ég þar í 14. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar (Forseti hringir.) um ráðherraábyrgð.