137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég ítreka kröfur okkar í stjórnarandstöðunni um að fundi verði frestað og utanríkismálanefnd verði kölluð saman strax. Það er nefnilega þannig að í fyrri yfirlýsingum Vinstri grænna lýstu þeir því einmitt yfir að þetta væri riftanlegur eða ógildur nauðungarsamningur og töluðu um ömurlega uppgjöf í þessu illvíga máli.

Ég spyr: Hvar eru fulltrúar Vinstri grænna í dag? Hvar eru þeir þegar verið er að skrifa undir ömurlega uppgjöf í þessu illvíga máli? Þeir láta ekki einu sinni sjá sig hér þegar við óskum eftir að fá upplýsingar um það nákvæmlega hversu ömurlegt þetta er í staðinn fyrir að menn tali um bærilegar niðurstöður, stórglæsilegar niðurstöður eða miklu betri niðurstöður en viðkomandi þorði að vona. Ég reikna með að viðkomandi, hæstv. forsætisráðherra, hafi virkilega hraðað sér burt úr Reykjavík (Forseti hringir.) af þessum persónulegu ástæðum því að ég veit ekki betur en hún hafi verið á ríkisstjórnarfundi klukkan eitt. (Forseti hringir.) Við byrjuðum í stjórnarandstöðunni að tala um þetta mál klukkan tvö þannig að hún hefði átt að vita nákvæmlega hvað var í gangi í þinginu en samt lætur hún ekki sjá sig. Þetta er algerlega ásættanlegt, frú forseti.