137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í virkjanamálum.

[15:13]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður kemur inn á varðandi álverið í Helguvík er auðvitað þannig að þar er allt enn á áætlun miðað við hvernig um málið var rætt hér þegar við ræddum fjárfestingarsamninginn á síðasta þingi. Við bíðum enn þá eftir niðurstöðu ESA áður en hægt er að undirrita þann fjárfestingarsamning og jafnframt er verið að vinna að fjármögnun verkefnisins og í raun og veru hefur ekkert nýtt komið fram síðan það var.

Vissulega er það svo að orkufyrirtækin hafa ekki frekar en önnur fyrirtæki farið varhluta af fjármálakreppunni, framkvæmdir þessara fyrirtækja hafa auðvitað í áratugi byggt á erlendum lántökum og það er ekkert launungarmál að þau eru ekki á hverju strái þessa dagana, a.m.k. ekki á kjörum sem viðráðanleg eru.

Það sem við þurfum að skoða í þessu, og ég held að við ættum að gera algerlega opið, er að skoða hvort við getum horft til innlendrar lánsfjármögnunar, t.d. frá lífeyrissjóðum eða öðrum aðilum sem það geta og hafa bolmagn til, eða horfa til þess hvort við getum farið í nýframkvæmdir í gegnum t.d. verkefnafjármögnun, þ.e. í sérstökum félögum sem standa fyrir utan efnahag orkufyrirtækjanna, og með þátttöku annarra fjárfesta, innlendra eða útlendra.

Eins og staðan er núna eru allar tímasetningar enn þá eins og lagt var upp með og ekkert hefur breyst í því. Ég get því svarað hv. þingmanni þannig: Ég tel að þessar tímasetningar og áætlanir eigi að geta staðist ef rétt er á málum haldið og sérstaklega mun það koma í ljós í sumar hvernig málum vindur fram en ég hef trú á að svo verði.