137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vátryggingastarfsemi.

53. mál
[17:11]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir þessu frumvarpi sem nú kemur í þriðja sinn fyrir þingið. Ég ætla bara rétt að koma upp í stuttu andsvari um þetta mál fremur en ræðu.

Hæstv. ráðherra nefndi að það væri nauðsynlegt að þetta mál fengi hraða yfirferð í hv. viðskiptanefnd og ég vona að hægt verði að verða við því en ég verð að segja að ég hef nokkrar efasemdir um það. Ástæðan er einfaldlega sú að í frumvarpinu er um að ræða miklum mun meiri breytingar en þær sem leiðir beint af þeim tilskipunum sem vitnað er til.

Eins og ráðherrann sagði hefur hér verið samið frumvarp að heildarlöggjöf um vátryggingastarfsemi á landinu. Ég nefndi það fyrr í vetur í umræðum um þetta mál að mér fyndist þetta mál svolítið 2007. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að því þegar málið kemur nú í þriðja sinn fyrir þingið hvaða lærdómar hafi verið dregnir af bankahruninu og hvar þess sjái stað í frumvarpinu núna, hvort því hafi verið breytt að því leytinu til frá því að það var lagt fram í upphaflegri mynd. Ég tel alveg nauðsynlegt að í meðferð viðskiptanefndar verði farið vandlega yfir það. Við ræddum í síðustu viku nauðsyn þess að skilja á milli vátryggingastarfsemi annars vegar og fjárfestingarstarfsemi hins vegar og hæstv. ráðherra tók undir með fyrirspyrjanda, sem þá var hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, um að það væri nauðsynlegt og eðlilegt að skoða í sambandi við þessi mál. Mig langar til að ítreka þessa spurningu: Hefur málið tekið einhverjum breytingum með tilliti til hrunsins síðastliðið haust?