137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vátryggingastarfsemi.

53. mál
[17:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra fór yfir og kynnti frumvarp sem felur í sér innleiðingu á endurtryggingartilskipunum Evrópusambandsins. Að auki er um að ræða lagabálk þar sem menn hafa endurskoðað lög um vátryggingasamninga og jafnframt er komið til móts við athugasemdir ESA, ef ég hef ekki misskilið hæstv. ráðherra.

Þegar er farið yfir málið og það skoðað kemst maður fljótt að því að það er mjög tæknilegt eins og frumvörp hvað þetta varðar eru oft og tíðum. Ráðherra rakti helstu breytingar, svo sem þá að vátryggingafélögin eigi að vera hlutafélög, ef ég skildi hann rétt. Mér skildist að ekki væri heimilt að hafa gagnkvæm vátryggingafélög eins og verið hefur hér á landi fram til þessa, alla vega ekki með svona einföldum hætti, en ráðherra leiðréttir mig ef það er röng túlkun.

Ég heyri á hv. þm. Eygló Harðardóttur að hún mun strax sjá eftir því að engar Samvinnutryggingar geti orðið til eða Brunabótafélag Íslands en ef ég skildi ráðherra rétt ber þetta það í sér og að gert er ráð fyrir því að vátryggingafélög á Íslandi verði hlutafélög. Það voru mjög stór og öflug gagnkvæm tryggingafélög á Íslandi þó svo að færa megi rök fyrir því að þau sem hætt hafa hefðbundinni vátryggingastarfsemi hafi ekki verið neitt sérstaklega gagnkvæm en það er annað mál.

Sömuleiðis er verið að flytja starfsleyfi frá ráðuneyti yfir í Fjármálaeftirlitið og breytingar verða vegna virks eignarhlutar og þrengingar á setu í stjórn. Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal sem hér talaði, það verður bara að segjast eins og er að það blikka öll viðvörunarljós þegar maður heyrir þessa upptalningu. Þegar menn flýta sér að keyra í gegn mál eins og þetta lenda menn í stöðu eins og við ræddum rétt áðan. Það er alveg ljóst að ef menn hefðu skoðað og farið betur yfir þá þætti sem snúa að Tryggingarsjóði innstæðueigenda hefðum við ekki verið í þeirri stöðu sem við erum í núna varðandi Icesave.

Ef það er eitthvað sem við getum lært, virðulegi forseti, á því sem á undan er gengið er það í það minnsta tvennt sem stendur upp úr þegar maður hlustar á þessar ræður hér. Það er annars vegar ofurtrú á tilskipunum Evrópusambandsins og ég held að menn telji, af því að Evrópusambandið er svo stórt batterí, að það hljóti að vera svo rosalega margir sem komi að því. Menn hafi hugsað (Gripið fram í.) — já, og einstaklega gáfulegir Evrópumenn — að það hljóti þá að vera hið fullkomna verk mannanna. Engir vita það betur en Íslendingar að svo er ekki. Við þurfum virkilega að blæða fyrir að það er bara eins og önnur mannanna verk, afskaplega gallað.

Nú má vera, virðulegi forseti, að jafnvel þó að við komumst að því að við höfum ekki sveigjanleika til þess að breyta ákveðnum hlutum innan tilskipunarinnar skiptir í það minnsta máli að við séum meðvituð um hverjar gloppurnar eru. Við værum í miklu betri málum ef við hefðum nálgast þessar tilskipanir með þeim hætti áður en það höfum við ekki gert, því miður.

Á sama hátt erum við ekki bara með ofurtrú á tilskipunum Evrópusambandsins heldur líka á eftirlitsstofnunum. Það er gott dæmi um það, svo ég vísi aftur í málið sem við ræddum áðan, að þær ná ekki að halda utan um alla hluti, jafnvel ekki jafnstóra hluti og Icesave-málið. Fyrir flesta leikmenn sem að þeim málum koma hlýtur viðkomandi leikmaður að spyrja sig: Af hverju í ósköpunum greip eftirlitsstofnun ekki inn í? Af hverju þurfti að koma til þessa?

Það eru hundruð og þúsundir manna — ég veit ekki hvort það eru hundruð þúsunda manna en alla vega tugþúsundir manna um allan heim í hverju einasta landi — og sérstakt kerfi sem gert er af Evrópusambandinu, fjármálaeftirlit, seðlabankar og fleira, sem hafa nær það eina markmið að koma í veg fyrir það sem kom fyrir.

Virðulegi forseti. Með fullri virðingu fyrir hæstv. ráðherra lít ég ekki svo á að við séum á sakamannabekk þó svo að við förum vel yfir mál. Þetta sumarþing á, eins og sumarþing gera vanalega eftir ríkisstjórnarskipti — svo að ég rifji það upp af því að ég held að við séum flest búin að gleyma því — að ganga frá brýnum málum. Það er sjálfsagt og eðlilegt að tala fyrir eins mörgum málum og mögulegt er og láta þau fara í umsagnarferli. Það er sjálfsagt að fara yfir það í nefndinni í sumar ef svo ber undir en við eigum ekki að gleyma því svo fljótt þegar við erum í miðju kafi við að vinna okkur út úr bankahruninu, hvað það þýðir þegar menn huga ekki nógu vel að hlutum og vanda ekki nógu vel til verka. Ég nefndi bara eitt dæmi varðandi Icesave en við getum öll nefnt miklu fleiri þar sem við getum svo sannarlega sagt eftir á: Ef menn hefðu farið betur yfir málin, sérstaklega þau sem koma frá Evrópu — því að fjármálaumhverfið sem erum í kemur beint úr tilskipunum Evrópusambandsins. Það er ekki heimagert, það kemur allt beint úr tilskipunum Evrópusambandsins og reyndist ekki betur en raun ber vitni.

Þetta frumvarp er hluti af fjármálakerfinu, það er alveg ljóst, og vátryggingastarfsemi er afskaplega mikilvæg starfsemi. Vátryggingastarfsemi á sér að vísu afskaplega djúpar rætur á Íslandi og má færa rök fyrir því að fyrstu tryggingafélögin hafi verið stofnuð hér á þjóðveldistímanum þó að þau bæru ekki nein nöfn. Þau fólu það í sér, virðulegi forseti, að ef bóndi lenti í því að það kviknaði í hjá honum bættu allir í hans hreppi honum það tjón. Mig minnir að þeir hafi reyndar einungis gert það tvisvar, ef það kviknaði í þriðja skipti hjá viðkomandi bónda þurfti hann að bera það tjón sjálfur svo það var ákveðin sjálfsábyrgð í því líka.

Við höfum því ríka hefð fyrir tryggingum, virðulegi forseti. Þetta mál er þess eðlis að ég tel að við þurfum að fara vel yfir það og fá þær umsagnir sem þarf. Við ættum að hafa þann tíma sem þarf til þess að loka því. Við höfum líka þann sveigjanleika að kalla þing saman í september. Mér sýnist að vísu að þetta verði allt annað en stutt sumarþing. Það er nokkuð merkilegt, virðulegi forseti, að enn er ekki komin nein áætlun um hverju þetta þing á að ná fram, ég tala nú ekki um hvenær það á að taka enda. Ég hvet stjórnarmeirihlutann og hæstv. ráðherra að hafa í huga að við höfum gert mistök þegar kemur að því að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins í íslensk lög, það er augljóst, og af þeim ástæðum einum held ég að það sé mikilvægt að fara vel yfir það.

Að auki virðist vera nokkuð erfitt að koma fyrir fundum nefndarinnar eins og við þekkjum og kannski eru á því eðlilegar skýringar, ég ætla ekki að ræða það hér. En það liggur mikið fyrir viðskiptanefnd. Stærsta einstaka málið er endurreisn bankanna og það sem henni viðkemur. Við eigum að setja þau mál ásamt Icesave og brýnum aðgerðum fyrir heimilin og fyrirtækin í algjöran forgang á þessu sumarþingi þó að það sé sjálfsagt og gott að menn mæli fyrir stórum frumvörpum eins og þessu. Það er gott að fá umsagnaraðila og gesti þegar svo ber undir en við eigum að setja þessi mál í forgang. Okkur hefur aðeins miðað áfram en ég held, virðulegi forseti, að við séum sammála um að það er mikið verk óunnið í nefndinni hvað þessa hluti varðar. Mjög mörgum spurningum er ósvarað og ég lít svo á að það sé algjört forgangsmál að svara þeim.