137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vextir og verðtrygging.

62. mál
[18:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefur það sýnt sig síðan hrunið varð að sparnaður hefur stóraukist í landinu. Kannski erum við komin í þá stöðu (Gripið fram í.) þrátt fyrir vextina, að þeir lokki ekki endilega. Vextirnir voru neikvæðir fram í febrúar, þannig að verðbólgan var meiri en stýrivextir Seðlabankans. Kannski er þessi vandi leystur með stórauknum sparnaðarvilja þjóðarinnar, að þjóðin sé að verða sparsöm. Þá mun væntanlega verða mikið framboð á peningum og vextir munu lækka og líka verðtryggðir vextir. Og kannski mun lærdómur 30 ára hverfa og menn verða sparsamari.

Ef menn ætla sér hins vegar með 1. gr. að takmarka verðtryggingu við 4% núna og segjum að það kæmi verðbólguskot núna, sem ég á engan veginn von á, að það kæmi verðbólguskot í haust út af einhverjum misheppnuðum ráðstöfunum ríkisvaldsins eða eitthvað slíkt og spariféð rýrnaði, því að það rýrnar. Það er ekki þannig að sparifjáreigandinn græði verðbæturnar, (Gripið fram í.) hann fær verðminni krónur til baka og hann hefur valið hvort hann vill spara eða ekki. Það er misskilningurinn. Hann getur nefnilega hætt að vera sparifjáreigandi, hann getur farið að eyða eins og hinir.

Það er akkúrat vandinn sem mér finnst hvergi tekið á í þessu frumvarpi eða horft til hagsmuna sparifjáreigenda sem er þó forsenda þess að hægt sé að lána. Það er ekki hægt að lána út krónu nema einhver spari krónu á móti einhvers staðar. Það er nefnilega meginvillan og kannski vegna þess að Íslendingar hafa í 20, 30, 40, 50 ár lifað af lánum erlendis frá meira og minna. Það er kannski þess vegna sem þjóðin er komin í það kaldakol sem hún er í dag.