137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar ákveðið var að ganga til samninga um hina svokölluðu Icesave-reikninga ákvað þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að vera á móti því að það yrði gert. Það gerði þingflokkurinn með skírskotun til tiltekinna sjónarmiða (Gripið fram í.) sem komu þar fram. Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem er formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hvort það sé ekki örugglega þannig að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs standi að þeirri niðurstöðu sem ríkisstjórnin hefur ákveðið varðandi Icesave-málið með undirskrift sinni nú fyrir helgina. Það skiptir auðvitað mjög miklu að þessi mál séu skýrð. Ég vil segja það sem mitt sjónarmið að ég tel það alveg sjálfgefið að ríkisstjórnarflokkarnir hljóti að standa að þessu einhuga því að það getur ekki verið að ein ríkisstjórn gangi frá máli af þessu tagi gagnvart öðrum þjóðum öðruvísi en vera búin að ganga úr skugga um að bak við það sé þinglegur meiri hluti. Það liggur fyrir að afla þarf heimilda þingsins til að hægt sé að fullgilda þennan samning. Ekki hefur verið leitað eftir stuðningi hjá stjórnarandstöðuflokkunum þannig að ég geng út frá því sem gefnu að ríkisstjórnarflokkarnir hafi kannað það í þingflokkunum hvort ekki sé nægilegur þinglegur stuðningur við þetta sjónarmið.

Það er kannski furðulegt að þurfa að spyrja svona spurninga, svo sjálfgefið ætti svarið að vera. En í ljósi forsögunnar og í ljósi þess að þingflokkurinn var andsnúinn því að ganga til þessara samningaviðræðna sem núna hefur hins vegar verið leitt til lykta með þessu samkomulagi finnst mér nauðsynlegt að þessi mál séu skýrð. Það hefur ekki komið beinlínis fram hjá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hver afstaða hans er og þess vegna vil ég spyrja hv. formann þingflokksins hver afstaða þingflokksins er til þessa samnings.