137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Sumir flokkar hafa verið kenndir við já, já og nei, nei. Það á ekki við um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. (Gripið fram í: Jú.) Hér var spurt: Á hvaða vegferð er þessi flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð? Hvað er hann að gera? Jú, hann er að taka til, þessi flokkur. Hann er að taka til eftir 18 ára efnahagsóstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, efnahagshrunið sem varð hér í haust sem væntanlega (Gripið fram í: … Samfylkingin?) verður rakið beina leið aftur til þess sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson nefndi áðan, til einkavæðingar bankanna, einkavinavæðingar bankanna sem þessir flokkar tveir stóðu að. (Gripið fram í.)

Við ætlum að leggja fyrir Alþingi Íslendinga, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði, Icesave-málið. Icesave-málið, öll gögn, hvert einasta snifsi sem til er um það mál í gögnum hjá ráðuneytum. Það ætlum við að gera til að þingið geti tekið upplýsta ákvörðun. Til að þingið geti tekið upplýsta ákvörðun um þetta stóra mál. Þetta er eitt viðamesta og alvarlegasta verkefni sem núverandi ríkisstjórn hefur þurft að glíma við og minnihlutastjórnin líka.

Það er ekkert áhlaupaverk að taka til eftir þessa tvo flokka eftir 20 ára (Gripið fram í.) starf þeirra hér. Það er ekkert áhlaupaverk en við kveinkum okkur ekkert undan því. Það er bara svoleiðis. (Gripið fram í.) Við kveinkum okkur ekki undan því og við munum taka ábyrgð á gerðum okkar. Ég segi fyrir mig, ég fagna því að fá nú loksins eftir þennan langa vetur aðstöðu til að kynna mér Icesave-málið. Og ég mun taka ákvörðun, upplýsta ákvörðun (Forseti hringir.) um það mál á grunni þeirra gagna.