137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það var athyglisverð spurning sem kom frá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni þegar hann spurði formann Framsóknarflokksins hvað honum fyndist um söluna á bönkunum og fróðlegt að rifja það upp að þegar hæstv. fjármálaráðherra fór hér yfir aðdragandann að Icesave-málinu dró hann einmitt söluna á bönkunum inn í þá atburðarás.

Við getum verið sammála um að ýmislegt hefði betur mátt fara við söluna. Það hefði mátt vera dreifðari eignaraðild. Eftir á að hyggja hefðum við þurft að styrkja eftirlitskerfið með bönkunum til mikilla muna. Við verðum samt að viðurkenna þá staðreynd að við innleiddum hér tilskipanir Evrópusambandsins um fjármálakerfi. Það var gert, þetta eru staðreyndir málsins.

Salan á ríkisbönkunum hefur ekkert með Icesave-reikningana að gera eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var að ýja að rétt áðan, akkúrat ekki neitt. (Gripið fram í.) Þar er bara verið að bera saman epli og appelsínur og verið að leiða almenning á villigötur.

Það stendur í íslenskum lögum að Íslendingar séu ábyrgir og íslenskur almenningur fyrir því sem er í innstæðutryggingarsjóðnum, 19 milljörðum. Ríkisstjórnin, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, er að taka ákvörðun um að almenningur taki á sig þessa 650 milljarða.

Það væri miklu nær að spyrja: Hvernig er hægt að blanda þessu saman og ýja að því eins og hv. þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna gera? Og svo er stóra spurningin: Hvað ætlar Samfylkingin að gera varðandi ríkisbankana? Eiga þeir að vera ríkisbankar áfram eða á að selja þá þegar fram í sækir?