137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég vil blanda mér aðeins í umræðu um Icesave og vil byrja á að árétta það að ég er ekki á hlaupum eitt eða neitt. Fyrir okkur blasir, þingmönnum þjóðarinnar sem voru kjörin þetta vorið, að taka mjög erfiðar ákvarðanir og við þurfum að sitja við borð sem við ætlumst til að sé bæði upplýst og gagnsætt og þar ríki mikið samráð og samvinna.

Við þurfum hins vegar líka að læra af reynslu annarra þjóða og temja okkur þá hugsun að við vitum ekki alltaf strax best og eigum ekki að vera föst í fari flokka og fyrri ákvarðana. Það hljómar hins vegar sérkennilega þegar ég segi það og ætla síðan að gagnrýna vinstri græna þegar þeir skipta um skoðun, að vera á móti Icesave-skuldbindingunum og fara svo fram í kosningar þar sem þeir eru m.a. kjörnir á grundvelli þess að þeir berjist gegn þeim en eru síðan komnir inn í þingsal á allt öðrum forsendum. Ég öfunda þau ekki að standa í þeim sporum og hvet þau til þess að horfast í augu við þá staðreynd hvað við horfðum fram á fyrr í vetur og hvaða upplýsingar við höfum til að taka þessar ákvarðanir.

Mig langar til að minna á að við stöndum frammi fyrir mjög erfiðum málum og hættan sem blasir við ef við tökum ekki réttar ákvarðanir er sú að hér fari mjög alvarlegir hlutir að gerast. Ég las það áðan, svo ég vitni í mbl.is, að á síðastliðnum þremur mánuðum hafa 268 Íslendingar tilkynnt flutning til Noregs og um 1.000 manns hafa leitað þar eftir vinnu samkvæmt norska vinnumálasambandinu. Í því sambandi vil ég minna á að í Færeyjum fór einn þriðji hluti Færeyinga á aldrinum 25–45 ára í burtu við sambærilegar aðstæður (Forseti hringir.) sem gætu orðið um 50 þúsund manns á Íslandi. (Gripið fram í.) Vandi okkar er mikill og ég hvet til þess að við hugsum hvernig við ætlum að (Forseti hringir.) taka ákvarðanir um Icesave-skuldbindingar.