137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

fyrirkomulag umræðu um störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Ég hef fulla trú á því, frú forseti, að þú hafi ekki miklar athugasemdir við fundarstjórn þína. (Forseti hringir.) En það sem ég ætla að nefna hér og taka undir með hv. þingmanni (Forseti hringir.) — og nú er ég að ræða um fundarstjórn forseta …

(Forseti (ÁRJ): Ég vil biðja hv. þingmann um að ávarpa forseta með tilhlýðilegum hætti í þingsal.)

Ég bið velvirðingar á þessu. En ég ætla að taka undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um að sú umræða sem hér var er því miður ekki nægilega markviss og við stjórnarandstæðingar sem komum hingað til að spyrja hv. þingmann úr því … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Um fundarstjórn forseta.)

Ég er að ræða um fundarstjórn forseta og ég óska eftir því að fá lengdan tíma til að ræða það ef ég fæ frið til að halda ræðu hér. Ég er að fjalla um fundarstjórn forseta í ljósi þess að hv. þingmaður gat ekki svarað fyrirspurnum hér en við hv. stjórnarandstæðingar komumst heldur ekki að til að bregðast við ræðum og svörum hv. þingmanns þannig að ég held að hér sé um (Forseti hringir.) sameiginlegt úrlausnarefni að ræða fyrir okkur … (Forseti hringir.)

Fyrirgefðu, frú forseti, nú er ég farinn að hafa verulegar athugasemdir við fundarstjórn forseta [Hlátur í þingsal.] því að ég fæ ekki frið til að halda ræðu um fundarstjórn forseta fyrir afskiptum hæstv. forseta þannig að ég óska eftir því að fá orðið aftur í ljósi þess að tími minn til að ræða um fundarstjórn forseta er búinn.