137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[14:22]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það má heyra á svari hæstv. ráðherra að þetta kemur við kaunin á honum og væntanlega fleirum í hæstv. ríkisstjórn. Ég held að hæstv. ráðherra ætti frekar að eyða tíma sínum í að vinna þau mál sem við erum boðuð sérstaklega til að taka á á þessu þingi og leyfa því sem er á borðinu að dvelja þar aðeins lengur, alla vega þeim sem skipta engu máli.

Það er einkenni þeirrar dagskrár sem er lögð fyrir þingið í dag að hér eru mál sem skipta í raun engu í þeim ólgusjó sem við erum í.

Það er mikilvægt að hæstv. ríkisstjórn fari að vakna og komi fram með einhverja von í samfélagið, fari að koma fram með eitthvað af þeim loforðum sem hún hefur gefið þessari þjóð og gefin voru í kosningabaráttunni. Fari að koma hér með mál og reyni að standa við öll fögru fyrirheitin. En það er einkenni á málflutningi og framsetningu mála þessarar ríkisstjórnar að það er fyrst og fremst verið að setja fram mál sem flokkast mega sem svikin loforð frá því sem þessir tveir stjórnarflokkar kynntu í aðdraganda kosninganna.

Ég hvet hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra til þess að leyfa nú málum sem skipta engu máli að eiga sig og fara að beina kröftum sínum að því að koma fram með eitthvað sem skiptir heimilin og fyrirtækin í þessu landi máli.