137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

starfsmenn í hlutastörfum.

70. mál
[14:24]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 10/2004, um starfsmenn í hlutastörfum.

Frumvarp þetta er lagt fram til að innleiða með fullnægjandi hætti Evróputilskipun um rammasamninginn um hlutastörf. Eftirlitsstofnun EFTA hefur talið þær undanþágur sem eru í 3. og 4. mgr. 2. gr. laganna of víðtækar til að samrýmast tilgangi framangreindrar tilskipunar.

Við smíði frumvarps þessa var haft samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök atvinnulífsins.

Samkomulag varð um að fella undanþágur sem er að finna í 3. og 4. mgr. 2. gr. laganna brott og er efni frumvarps þessa í samræmi við þá tillögu.

Ég legg áherslu á að frumvarp þetta hefur engin áhrif á heimildir ríkis og sveitarfélaga til að ráða til starfa fólk sem á grundvelli hlutlægra ástæðna fær greitt tímavinnukaup, enda samræmist slík ráðning ákvæðum kjarasamninga og eftir atvikum öðrum lögum.

Starfskjör og starfsskilyrði starfsmanns sem ráðinn er á slíkum kjörum en er ekki í fullu starfi skulu þá borin saman við starfskjör og starfsskilyrði sambærilegs starfsmanns sem er starfsmaður í fullu starfi sem fær greitt tímavinnukaup.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.