137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[14:28]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum. Frumvarpið er á þskj. 97 og er 85. mál þingsins.

Um nokkurn tíma hefur verið unnið að endurskoðun á ákvæðum VIII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem fjallar um sparisjóði. Upphaflega var nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði árið 2007 falið að vinna frumvarpsdrög en nefndin var leyst frá störfum áður en hún lauk vinnu sinni og er frumvarp þetta samið af sérfræðingum á vegum viðskiptaráðuneytisins. Ýmis ákvæði frumvarpsins eru þó beinn afrakstur nefndarvinnunnar.

Sparisjóðirnir og fjármálafyrirtæki tengd þeim fóru ekki varhluta af þeim hremmingum sem riðu yfir innlendan fjármálamarkað í fyrrahaust. Eftir fall viðskiptabankanna þriggja fylgdu Sparisjóðabankinn hf. og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., SPRON, í kjölfarið. Þá hefur verið unnið að því að færa rekstur Sparisjóðs Mýrasýslu undir Nýja Kaupþing banka hf.

Rekstrarafkoma sparisjóða var almennt mjög slæm á árinu 2008. Hjá flestum þeirra varð veruleg rýrnun á eigin fé einkum vegna lækkunar á hlutabréfaverði og gangvirði eignarhluta í félögum. Þá var afkoma af kjarnastarfsemi fyrir skatta neikvæð hjá flestum þeirra. Því er ljóst að staða sparisjóðanna er erfið um þessar mundir og margir þeirra hafa þörf fyrir að auka stofnfé sitt til að styrkja eiginfjárgrundvöll og rekstrarhæfi.

Margir sparisjóðir hafa á síðustu árum hækkað stofnfé sitt mjög mikið og greitt stofnfjáreigendum ríflegan arð og það hefur gengið á varasjóði þeirra. Vegna tapreksturs á síðasta ári er nú svo komið að í mörgum þeirra er varasjóður uppurinn og jafnvel orðinn neikvæður.

Þær meginbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þessar:

Gerð er tillaga sem eyða á vafa um félagaform sparisjóðanna. Í frumvarpinu er kveðið á um að stofnfjársparisjóðir séu sjálfseignarstofnanir. Einnig eru eignarréttindi stofnfjáreigenda afmörkuð og er tekið fram að þau takmarkist við bókfært stofnfé og er sérstaklega tiltekið að stofnfjáreigendur eigi enga hlutdeild í óráðstöfuðu eigin fé eða varasjóðum sparisjóðs.

Tengist skilgreiningin á sparisjóði og réttindum stofnfjáreiganda m.a. því að í frumvarpinu er hvorki gert ráð fyrir að stofnaðir verði nýir hlutafélagasparisjóðir né að unnt verði að breyta stofnfjársparisjóðum í hlutafélagasparisjóði. Þeir hlutafélagasparisjóðir sem eru með starfsleyfi við gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, halda þó rétti sínum til að mega kalla sig sparisjóði.

Í 2. gr. og 3. gr. frumvarpsins er vísað til þess að sparisjóðir setji sér samfélagslegt hlutverk. Ekki er gerð tilraun til þess að skilgreina nánar með hvaða hætti slíkt skuli gert enda aðstæður eða þarfir mismunandi á milli starfssvæða hinna einstöku sparisjóða. Þó má gera ráð fyrir að þau verkefni sem sparisjóðir helst horfa til varði t.d. stuðning við íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarviðburði og líknarmál.

Í frumvarpinu er lagt til að hin almennu ákvæði laganna, t.d. um meðferð eignarhluta, skuli gilda um sparisjóði með sama hætti og þau gilda um önnur fjármálafyrirtæki. Af þessu leiðir að ákvæði um takmörkun á sölu og innlausn stofnfjár eru felld brott og gera tillögur frumvarpsins ráð fyrir að stofnfjáreigendur, sem vilja af einhverjum orsökum afsetja stofnfjárbréf sín, beri ábyrgð á sölunni og að viðskipti með stofnfjárbréf lúti almennum reglum um viðskipti með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum sem er að finna í lögunum. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gert athugasemdir við það að þær takmarkanir sem væru á viðskiptum með stofnfé stönguðust á við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Er brugðist við athugasemdum ESA með þessum tillögum.

Í frumvarpinu er lagt til að aflétt verði þeim hömlum sem verið hafa á útboðsgengi útgefinna stofnfjárhluta en þess í stað sett lágmarksverð sem er nafnverð stofnfjár. Hafa hömlur gildandi laga stuðlað að ógagnsæi varðandi eðlilegt verð stofnfjárhluta og því að verðmæti hlutanna umfram uppreiknað nafnverð hefur eingöngu komið til góða eftirmarkaði, þ.e. stofnfjáreigendum, en ekki útgefanda, þ.e. viðkomandi sparisjóði.

Eitt af markmiðum þeirra breytinga sem lagðar eru til á ákvæðum kaflans er að auðvelda sparisjóðum að sækja sér nýtt stofnfé, m.a. á grundvelli laga nr. 125/2008, með því að geta lækkað núverandi stofnfé til að mæta taprekstri síðustu ára og með þeim hætti jafnað varasjóð sparisjóðsins. Með þeirri aðgerð eru núverandi stofnfjáreigendur að taka á sig tap sparisjóðsins að því leyti sem það kann að vera umfram varasjóð.

Í gildandi lögum er ekki talin vera fyrir hendi heimild til að lækka stofnfé. Miðað við þá stöðu sem nokkrir sparisjóðir eru í, þ.e. að bókfært stofnfé er hærra en eigið fé og varasjóðir því neikvæðir, er nauðsynlegt að fyrir hendi séu ákvæði sem rétt geta af slíkan halla. Að öðrum kosti er ólíklegt að nýir aðilar fáist til að leggja slíkum sparisjóðum til aukið eigið fé. Með ákvæðinu er einnig tekinn af vafi um að ríkið fái hlutdeild í samræmi við það framlag sem það leggur í sparisjóði á grundvelli 2. gr. laga nr. 125/2008.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um endurmat stofnfjár til hækkunar verði einfölduð og þrengd, sem og heimildir til arðgreiðslna. Gera tillögur frumvarpsins ráð fyrir því að aðeins verði heimilt að greiða arð þegar hagnaður hefur verið af rekstri sparisjóðs í fimm ár. Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að greiða arð þótt taprekstur hafi verið á sjóðnum.

Verði tillögur frumvarpsins að lögum verður sparisjóðum heimilt að ráðstafa þeim hagnaði sem renna má til stofnfjáreigenda með tvennum hætti, annars vegar með því að hækka stofnfé, þ.e. með því að greiða inn á stofnfjárreikning stofnfjáreigenda og hækka þannig nafnverð stofnfjár, og hins vegar með beinni arðgreiðslu.

Þá er lögð til sú meginregla að 50% hagnaðar verði læstur inni í sparisjóði sem varasjóður til að mæta hugsanlegu tapi í framtíðinni. Vissulega kunna hömlur þessar að draga úr áhuga aðila á því að setja fé í sparisjóði, en þeim er ætlað að þjóna því markmiði að byggja upp varasjóði í sparisjóðum. Án styrkingar innan frá er vandséð hvernig sparisjóðir eigi að geta starfað áfram. Allflestir starfandi sparisjóðir munu þurfa á framlagi úr ríkissjóði að halda til að geta haldið áfram starfsemi sinni og er því ekki óeðlilegt að slíkar starfstakmarkanir séu í gildi á meðan verið er að styrkja grunn þeirra.

Um langt skeið hafa sparisjóðir haft með sér ýmiss konar samvinnu, t.d. um tölvuvinnslu, markaðssetningu og námskeiðahald svo og ákvarðanir um vexti og gjaldskrárliði. Þessi samvinna hefur auðveldað minni sparisjóðum þátttöku í samkeppni á fjármálamarkaði. Samkeppniseftirlitið hefur samstarf sparisjóðanna til skoðunar og má búast við því að þrengt verði að möguleikum þeirra til samstarfs nema til komi sérstök ákvæði í lögum sem heimili þeim samstarfið. Í frumvarpinu er gerð tillaga um heimildir sparisjóða til samstarfs og er við það miðað að þær heimildir raski ekki eðlilegri samkeppni á markaði.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru ýmist til einföldunar eða til komnar vegna þeirra meginbreytinga sem voru tilefni frumvarpsins. Vísast til athugasemda með frumvarpinu varðandi umfjöllun um þær.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu er lagt til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.