137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[14:38]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru ágætar spurningar eins og við var að búast og snerta reyndar kannski grunnhugmyndina á bak við sparisjóði. Því er vert að þingið og hv. viðskiptanefnd velti þessu fyrir sér eins og reyndar ráðherra hefur gert. Ég er á því, og tek undir það með þingmanninum, að sumar af fjárfestingum sparisjóðanna á liðnum árum hafa vissulega staðið undir hagnaði til skamms tíma en orka nú mjög tvímælis í ljósi reynslunnar. Það hlýtur að koma mjög alvarlega til skoðunar, og er reyndar alveg bráðnauðsynlegt, að Fjármálaeftirlitið og hugsanlega ráðuneytið eða löggjafinn fari yfir þau mál eins og fjárfestingarheimildir ýmissa annarra aðila, t.d. vátryggingafélaga sem við vorum að ræða í þessum sal í gær, og skoði sérstaklega hvort rétt sé að setja nánari skorður við þeim eða nánari reglur um þær. Það er hins vegar ekki gert í frumvarpinu.

Ég bendi hins vegar á að það er vel þekkt að það er mjög áhættusöm uppskrift ef menn geta náð því að stýra fé annarra, eiga þess kost að hætta því í áhætturekstri og eiga jafnvel kost á því að njóta afrakstursins ef vel gengur en að skellurinn lendi á öðrum ef illa gengur. Það er erfitt að girða fullkomlega fyrir það með lögum en þær skorður sem settar eru með arðgreiðslum út úr sparisjóðum í þessu frumvarpi eru í raun og veru viðbrögð við þessari hættu. Þótt þau geti ekki alveg komið í veg fyrir hana eiga þau að draga úr henni.