137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[14:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég kem hér upp til þess að lýsa yfir ánægju með það frumvarp sem við ræðum um leið og við hljótum að velta fyrir okkur stöðu háskólastúdenta í því árferði sem er í dag. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í hvaða hugmyndir ráðherrann hefur til að koma til móts við erfiða stöðu námsmanna. Við höfum á undangengnum vikum og mánuðum rætt um þá erfiðu stöðu sem margir eru í í dag, sérstaklega námsmenn erlendis. Við höfum mikið rætt um samtímagreiðslur á lánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Eins og fyrirkomulagið er í dag þurfa námsmenn að sækja um lán frá lánasjóðnum og fá greitt mörgum mánuðum síðar. Viðkomandi þurfa þar af leiðandi að afla sér framfæris með öðrum hætti með himinháum yfirdráttarvöxtum eða einhverjum öðrum erfiðum úrræðum og þetta hefur valdið því að námsmenn hafa þurft að borga mikil vaxtagjöld vegna þessa.

Ég held að eðlilegt sé þegar við ræðum um breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna — og nú biðst ég afsökunar því að ég var á fundi hér nálægt þannig að ég gat ekki heyrt framsögu hæstv. ráðherra, það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi getið um þessi mál í framsögu sinni. En í raun og veru er ekki hægt, a.m.k. hvað mig snertir, að ræða um breytingar á lögum um lánasjóðinn án þess að ræða um heildarsamhengið og um það hvort og hvenær núverandi ríkisstjórn ætlar sér að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að námsmenn þurfi ekki að greiða þó nokkurn hluta af framfærslu sinni í dráttarvexti til ríkisbankanna þriggja. Þetta fyrirkomulag er barn síns tíma að mínu viti og eitthvað sem við ættum örugglega að geta sammælst um að breyta.

Í ljósi þess að framfærsluviðmið námsmanna á mánuði eru rúmar 100 þús. kr. og það er það viðmið sem lánasjóðurinn hefur í lánveitingum sínum, þá velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra telji ekki að breyta þurfi þeim viðmiðunum. Hæstv. ráðherra hefur á undangengnum árum talað um að þau þyrfti að endurskoða og mér skilst að slík endurskoðun sé í gangi. Í ljósi þess að við horfum upp á að 17 þúsund Íslendingar ganga um atvinnulausir, en atvinnuleysisbætur í dag eru 150 þús. kr. á meðan þessi framfærslugrunnur er einungis 100 þús. kr., og í ljósi þess ástands sem blasir við núna velti ég fyrir mér hvort ekki komi til álita að gera það fýsilegra út frá framfærslunni að stunda nám í háskólum en að vera á atvinnuleysisbótum. Tíma viðkomandi hlýtur að vera betur borgið innan veggja skólanna en að vera á framfæri Atvinnuleysistryggingasjóðs. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún hafi hugleitt þetta samspil, þ.e. að við hugum að því að í raun sé ekki síður hagkvæmara fyrir einstaklinginn að stunda nám frekar en að þiggja bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sérstaklega í ljósi þess að þau framlög sem framfærslugrunnurinn er eru greidd til baka að verulegu leyti og þar af leiðandi er ekki um eiginleg útgjöld að ræða heldur fjárfestingu í menntun sem viðkomandi greiðir síðar meir á lífsleiðinni, væntanlega þá kominn í betri vinnu vegna þess að hann hefur betri menntun en ella.

Það er á þessu tímabili, á þessum tveimur til þremur næstu árum, sem ég held að við þurfum að vera snögg að taka ákvarðanir. Nú hefjast skólar aftur í haust, margir að taka ákvarðanir um hvað þeir eigi að gera, hvort þeir eigi að sækja um nám eða gera eitthvað annað. Ef það er sá hvati fyrir hendi, eins og blasir við okkur í dag, að hagstæðara sé fjárhagslega fyrir viðkomandi að velja atvinnuleysisbæturnar, eins huggulega og ég kemst að orði í þeim efnum, frekar en að sækja nám þá held ég að við þurfum að skoða þau mál sérstaklega á sumarþinginu.

Ég nefndi í gær þegar við ræddum í fyrirspurnatíma um málefni námsmanna út frá sumarönnum að ég fékk tölvupóst frá einum aðila sem sótti um sumarnám í háskóla, ákvað að velja sér tvö námskeið og komst að því að fyrst hann valdi tvö námskeið á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum, sem hann hefði átt rétt á ef hann hefði valið eitt námskeið. En hann á heldur ekki rétt á fyrirgreiðslu úr Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna þess að hann valdi ekki þrjú námskeið. Viðkomandi námsmaður hefur því dottið á milli skips og bryggju. Ég innti hæstv. ráðherra eftir því fyrir nokkrum dögum hvort hún hygðist beita sér fyrir því að þessir vankantar sem blasa við, og trúlega margir námsmenn hafa lent í, verði sniðnir af. Það er náttúrlega með öllu óviðunandi að horfa upp á að námsmaður sem velur sér tvö námskeið í sumarnámi í staðinn fyrir eitt sé verr staddur en sá einstaklingur sem velur sér eitt námskeið, eins fáránlega og það hljómar. Ég tel mikilvægt að við fáum svör í þeim efnum.

Einnig hefði ég viljað heyra frá hæstv. ráðherra, af því að ég sé að hæstv. ráðherra er á mælendaskrá, — og enn og aftur get ég þess að ég heyrði ekki framsögu hæstv. ráðherra — hvort ráðherra hafi einhverjar upplýsingar um stöðu námsmanna núna þegar skólum er að ljúka. Við höfum haft verulegar áhyggjur af stöðu háskólastúdenta og við ræddum á síðasta kjörtímabili, sem sagt núna í vor, um stöðu stúdenta, atvinnuhorfur og að gera mætti ráð fyrir því að þúsundir stúdenta verði atvinnulausir í sumar. Er það svo að við horfum upp á þúsundir framhaldsskólanema og háskólanema án atvinnu? Eins og hæstv. ráðherra benti á í svari sínu við fyrirspurn minni um daginn hefur sumarnám í háskólum gefist vel og það hefur náð að mæta nær öllum þeim sem sóttu um. Ég velti því fyrir mér hvort einhverjir standi út af í þeim efnum og jafnframt hvort sá viðbótarstyrkur sem hæstv. iðnaðarráðherra og menntamálaráðherra beittu sér fyrir að settur yrði í Nýsköpunarsjóð námsmanna muni skila sér í verkefnum á þessu sumri þannig að ungt fólk sem hefur verið í námi í háskólum landsins geti sótt í Nýsköpunarsjóð námsmanna gagnvart þeim verkefnum sem viðkomandi hafa kannski fóstrað innra með sér í lengri tíma.

Mikill mannauður felst í ungu og menntuðu fólki og ég hef þá trú að þetta sé sú kynslóð sem eigi eftir að vinna okkur á endanum út úr kreppunni, þ.e. ef við verðum svo lánsöm sem þjóð að halda þessu unga fólki í landinu. Það er einmitt í ljósi þeirrar umræðu og þess sem við í stjórnarandstöðunni höfum sagt, þ.e. komið með aðvörunarorð gagnvart Icesave og aðgerðaleysi í málefnum heimila og fyrirtækja, að við þurfum því miður að horfast í augu við það að stór hluti af menntuðu fólki hér á landi og fólki sem er að ljúka námi kjósi í ljósi framtíðaraðstæðna hér á landi að hverfa af landi brott og stunda atvinnu sem hæfir námi viðkomandi á erlendri grundu. Færeyingar lentu í þessu í upphafi tíunda áratugarins og við þurfum að róa öllum árum að því að þetta gerist ekki á Íslandi.

Því er eðlilegt að við spyrjum hæstv. menntamálaráðherra að því hver staða námsmanna sé á þessu sumri því að sú staða skiptir náttúrlega verulegu máli um framtíðaráform viðkomandi því að fólk er mjög frjálst á þessum aldri og hugsar vítt. Ef fólk hefur ekkert við að vera og hefur kannski nýlokið námi eru meiri líkur en ella á því að viðkomandi leiti annað en á íslenskan vinnumarkað sem er mjög takmarkaður eins og sakir standa.

Eins veltum við fyrir okkur stöðu lánasjóðsins í dag. Síðasta ríkisstjórn gerði þann óskunda að ganga verulega á eigið fé sjóðsins, mig minnir að það hafi verið hátt í 1.000 millj. kr. Með því var í raun verið að fresta vandanum, ganga á eigið fé sjóðsins, og nú blasir vandinn við væntanlega á næstu mánuðum vegna þess að eigið fé er ekki svo mikið sem raun ber vitni. Þess vegna hljótum við að velta fyrir okkur hver staða sjóðsins er og hvaða skilyrðum lánasjóðurinn verður búinn á næstu vikum og mánuðum. Á að skera niður í framlögum til sjóðsins? Trúlega hefur hlutverk sjóðsins aldrei verið eins mikilvægt og nú, í miklu atvinnuleysi þegar við þurfum að reiða okkur á háskólanám, að fólk leiti sér mennta. En það verður þá að skapa aðstæður fyrir fólk að það geti gert það. Þess vegna þarf lánasjóðurinn að vera vel efnum búinn og það hljómar ankannalega í mjög erfiðu árferði að tala með þessum hætti en við megum allra síst við því að skera mikið niður í menntamálum og þeirri umgjörð sem við búum fólki sem vill stunda nám hér á landi og þar skiptir lánasjóðurinn miklu máli.

Við skulum hafa líka í huga jafnræðið í þessu. Við hljótum öll að vilja skapa fólki jöfn tækifæri, sama hvort það býr á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi. Jöfn tækifæri felast í því að fólk geti framfleytt sér á meðan það er í námi. Í gegnum tíðina hafa íslenskir háskólastúdentar margir hverjir ekki notað lánasjóðinn heldur unnið með námi sínu en nú eru þær aðstæður ekki fyrir hendi. Þess vegna hefur þetta hlutverk aldrei verið eins mikilvægt. Þess vegna væri rétt að heyra frá hæstv. ráðherra hvaða framtíð hún sjái í lánasjóðnum. Á að auka við framlögin? Ljóst er að stóraukin ásókn verður á háskólanám hér á landi. Því er brýnt að vita hvaða hugmyndir eru uppi um framlög til lánasjóðsins, sérstaklega af því að við sem höfum verið hér í nokkurn tíma á Alþingi vitum að nú er fjárlagagerð í gangi hjá ríkisstjórninni og ákveðnir rammar komnir að, sem við þingmenn fáum því miður ekki að sjá fyrr en seint og um síðir þegar ríkisstjórnin er að móta fjárlögin. Ég hefði viljað heyra hver forgangsröðun hæstv. ráðherra er innan menntamálaráðuneytisins, hvort Lánasjóður íslenskra námsmanna sé þar í fyrirrúmi.

Að lokum vil ég segja, frú forseti, að við erum að ræða um samdrátt í ríkisfjármálum í hinum og þessum málaflokkum, á sumum stöðum upp á tugi milljóna, á öðrum stöðum upp á hundruð milljóna. Á sama tíma erum við að ræða um skuldbindingar sem ríkisstjórnin ætlar að steypa íslensku þjóðinni í þar sem einungis vextir á fyrsta ári þeirra skuldbindinga verða einir 36 milljarðar, 36 þúsund milljónir. Síðan er verið að horfa í eina og ein körfu og reyna að tína til milljón hér og milljón þar á meðan við ætlum að láta það yfir okkur ganga, og höfum látið gera það, að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands skuli vera búnir að skuldbinda íslenska þjóð um mörg hundruð milljarða króna.

Hvernig er sá samningur að lokum ef hann verður staðfestur á Alþingi? Jú, 300 þúsund manna eyþjóð norður í Atlantshafi mun á endanum bera alla ábyrgð á því ef illa fer, þ.e. ef við fáum ekki eins mikið úr eignasafni Landsbankans og sumir eru að spá. Við þekkjum ræður og umræður síðustu vikna og mánaða í tengslum við hrunið að staða bankanna var nú aldeilis ekki slæm fyrir hrunið, forustumenn þeirra sögðu að eignasöfn þeirra væru góð og þetta væri allt í lagi, við þyrftum ekki að hafa áhyggjur. Við heyrum sömu ræðurnar núna, að eignasafn Landsbankans erlendis sé svo gott að við þurfum ekki að hafa áhyggjur og jafnvel geti eignirnar bara gengið upp í alla þessa skuldbindingu sem við erum að undirgangast. Ef það gerist ekki, og sagan segir okkur að það hefur ekki alltaf gengið eftir, erum við að undirgangast mörg hundruð milljarða króna skuldbindingu þar sem, eins og ég sagði áður, vaxtakostnaður fyrsta árið er 36 þúsund milljónir, sem er miklu meira en rekstur Landspítalans.

Ég spyr því að lokum, um leið og ég ítreka fyrri spurningar mínar um Lánasjóð íslenskra námsmanna og vanda námsmanna, hvort hæstv. menntamálaráðherra ætli sér að styðja og greiða atkvæði með þeim samningi sem ríkisstjórnin hefur undirgengist, sem mun skuldbinda næstu kynslóðir Íslandssögunnar. Mikilvægt er að við fáum það á hreint í þessari umræðu vegna þess að þó að við séum að tala um nokkrar milljónir, tugmilljónir eða hundruð milljóna niðurskurð í einstaka málaflokkum, erum við að tala um svo gígantískar skuldbindingar, ef af verður, er allt annað aukaatriði í rekstri ríkissjóðs. Ef þetta gengur eftir munum við einfaldlega ekki rísa undir þeim skuldbindingum sem samfélag og þá er því miður illa komið fyrir Lánasjóði íslenskra námsmanna og öðrum þáttum í velferðarkerfi okkar. Þetta getur gengið mjög hart að undirstöðu þjóðfélagsins og þess vegna getur orðið mjög erfitt að reka menntakerfið, velferðarkerfið (Forseti hringir.) og allt samfélagið ef við samþykkjum Icesave-samningana eins og þeir hljóða nú.